Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út fyrir hádegi í dag vegna göngufólks í vandræðum við Hvannadalshnúk. Tvær konur úr gönguhóp sem var að koma af hnúknum hrösuðu og kenndu eymsla á fæti eftir það.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Veður var farið að versna á svæðinu og óskuðu þær eftir aðstoð en héldu jafnframt áfram ferðinni niður af jöklinum með gönguhópnum sínum.
Í dag hefur nokkur fjöldi hópa verið að ferðast á jöklinum en veður tók að versna undir hádegi. Eftir hádegi hefur veður í yfir 1.100 metra hæð verið mjög vont, lítið sem ekkert skyggni, snjókoma og mikill vindur.
Eftir hádegi var farið að grennslast fyrir um hópana sem voru á jöklinum og kallaðir voru út fleiri hópar björgunarsveitarfólks ásamt snjóbílum, til öryggis ef veður skyldi versna enn frekar.
Konurnar komust niður af jöklinum og úr versta veðrinu af sjálfsdáðum og þurftu því ekki á aðstoð björgunarsveita að halda.
Þegar ljóst var að konurnar þyrftu ekki aðstoð barst tilkynning frá öðrum gönguhópi sem óskaði eftir aðstoð þar sem hluti af hópnum var að örmagnast. Björgunarsveitarfólkið sem var á leið á jökulinn á vélsleðum og jeppum hélt þá för sinni áfram, nú til móts við þann gönguhóp.
Þrír úr hópnum héldu kyrru fyrir en restin af hópnum hélt för sinni áfram niður jökulinn og úr versta veðrinu. Klukkan hálffjögur kom björgunarsveitarfólk á vélsleðum að þeim sem héldu kyrru fyrir og mun hjálpa þeim niður af jöklinum.
Búið er að hafa samband við flesta hópa sem voru á jöklinum og virðist sem þeir séu komnir niður úr veðrinu og haldi áfram niður af jöklinum án frekari aðstoðar. Björgunarsveitarfólk verður þó við upphaf gönguleiðarinnar á jökulinn og telur hópana sem koma niður af jöklinum til að fylgjast með hvort ekki skili sér allir.