Andrés Magnússon
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrverandi ráðherra, hefur ákveðið að sækjast ekki eftir kjöri á Alþingi í komandi þingkosningum í haust. Frá þessu greinir hann í viðtali í Morgunblaðinu í dag.
Gunnar Bragi segist kveðja stjórnmálin sáttur, þetta hafi verið ákaflega lærdómsríkur og áhugaverður tími, en hann var fyrst kjörinn á Alþingi árið 2009 og hefur því setið á þingi í 12 ár. Það þykir honum mjög mátulegur tími.
Í viðtalinu kemur fram að honum þykir ekki nógu mikið traust vera á þingi og í þjóðmálaumræðu, sem nauðsynlegt sé að endurvekja. Það geti hins vegar verið örðugt, eins og hann þekki eftir viðskilnað við Framsóknarflokkinn. Þar á milli lifi enn særindi og minning um óheilindi sem erfitt sé að líta fram hjá.