Ríflega helmingur kjörinna sveitarstjórnarmanna hefur orðið fyrir áreitni eða neikvæðu umtali á yfirstandandi eða síðasta kjörtímabili og er lítill munur á milli kynja.
Þetta kemur fram í rannsókn sem dr. Eva Marín Hlynsdóttir vinnur að en Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, greindi frá þessum niðurstöðum í ávarpi á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær.
„Tölurnar sýna að algengast var að þátttakendur hefðu orðið fyrir áreitni á samfélagsmiðlum en einnig var töluvert um áreitni í opinberu rými, til dæmis á skemmtunum eða í verslunum. Allt að 10% höfðu orðið fyrir slíkri áreitni á heimilum sínum,“ sagði Sigurður Ingi.
Áreitni sem sveitarstjórnarfulltrúar verða fyrir og mikil og hröð endurnýjun í sveitarstjórnum kom töluvert til umræðu í ræðum og fyrirspurnatíma á þinginu í gær.