Gunnar Schram yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir það ekki koma á óvart að hraun sé tekið að renna yfir eystri varnargarðinn í Fagradalsfjalli. Hann segir að draga megi lærdóm af varnargörðunum.
Varnargarðinum var komið upp til þess að hamla hraunstraumi í Nátthaga. Gunnar segir að hraun hafi líklega farið yfir garðinn í nótt.
„Þetta hefur gerst í nótt. Í gærkvöldi fannst mönnum ekkert ólíklegt að þetta myndi gerast í nótt, sem það svo gerði. Í sjálfu sér kom það engum á óvart,“ segir Gunnar.
„Hraunið var alveg komið upp að og það var viðbúið að það myndi fara yfir hann. Við erum búin að vera að sjá þetta gerast síðan fyrr í vikunni, að það komi svokölluð undanhlaup úr hrauntjörn sem er fyrir miðju í þessum nafnlausa dal. Þetta er fljótt að gerast og bara spurning hvað þetta stendur yfir í langan tíma og hvert magnið af hrauninu er,“ segir Gunnar.
Hann segir að draga megi lærdóm af tilraunum með varnargarðana.
„Það er athyglisvert með þessa hraunrennslisvarnargarða að það virtist nú takast að stýra hrauninu upp að vissu marki. Á endanum varð hraunmagnið bara þannig að það fór yfir þá, en það var ákveðinn lærdómur sem ég held að hafi fengist. Okkur tókst að stýra þessu tímabundið þannig að þessir garðar greinilega virka, en þegar baðkarið fyllist þá flæðir yfir,“ segir Gunnar og bætir við:
„Það er athyglisvert finnst mér, að ef svona gerist eitthvað nærri byggð þá er einhver möguleiki á að stýra því, allavega á því að kaupa tíma.“
Varnargarðarnir voru gerðir í því skyni að seinka því að hraun renni í Nátthaga og nái þannig seinna að ljósleiðara sem þar liggur og hringtengir Reykjanes, og að Suðurstrandarvegi.
Í vikunni var ljósleiðari grafinn niður fyrir framan eystri varnargarðinn til að mæla áhrif hraunrennslis yfir hann. Hraun flæddi yfir tilraunaljósleiðarann á miðvikudag.
„Fyrir framan varnargarðinn var settur bráðabirgðaruðningur sem flæddi yfir fyrr í vikunni, ljósleiðarinn var á milli þess garðs og síðan varnargarðsins sem hefur flætt yfir núna. Ljósleiðarastrengurinn hefur farið undir hraun í miðri vikunni. Það er verið að kanna hvaða áhrif hraunflæði yfir hann hafi, hvort hann standi þetta af sér eða ekki. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvað kemur úr því,“ segir Gunnar.
Hann segir að enn þurfi hraunið að flæða nokkra vegalengd áður en það nær niður í Nátthaga. Það hafi verið til umræðu að koma upp nýjum varnargörðum sunnar, á milli þeirra garða sem þegar hafa verið gerðir og Nátthaga, en ekkert liggur fyrir um það enn. Nátthagi sé djúpur og víður dalur sem eigi eftir að taka óhemjumikið af hrauni.