Sneri sér aftur að skóla og dúxaði

Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari FÁ, Gunnur Rún Hafsteinsdóttir dúx og Magnús …
Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari FÁ, Gunnur Rún Hafsteinsdóttir dúx og Magnús Ingvasson skólameistari FÁ. Ljósmynd/Aðsend

Gunnur Rún Hafsteinsdóttir dúxaði í Fjölbrautaskólanum við Ármúla í ár með ágætiseinkunnina 9,01 af náttúrufræðibraut í fimmtu atlögu sinni að stúdentsprófinu. 

Gunnur er 24 ára og hafði áður reynt við fjóra aðra skóla. Hún segir í samtali við mbl.is að hún hafi ekki fundið sig í menntaskóla strax eftir grunnskólagöngu og sé því útskrift nú í gær sætur sigur. 

„Þetta var búið að taka langan tíma og ég var búin að koma við í mörgum skólum, og loksins kom þetta hjá mér,“ segir Gunnur. 

„Ég útskrifaðist úr grunnskólanum í Vestmannaeyjum og flutti til Reykjavíkur eftir það og menntaskólaganga gekk ekki hjá mér eftir það. Ég byrjaði alltaf en hætti á miðri önn.“

Ellefu fög síðustu önnina

Gunnur fór í skiptinám til Asíu með AFS-skiptinemasamtökum í millitíðinni og ákvað svo haustið 2019 að taka námið föstum tökum. 

Henni tókst að klára alla áfanga sem eftir voru til stúdentsprófs á fjórum önnum en áfangarnir sem hún fékk metna úr öðrum skólum voru ekki margir. 

„Ég var einmitt í ellefu fögum á þessari síðustu önn,“ segir Gunnur. 

„Ég var alltaf góður námsmaður, en af því að ég fann mig ekki í menntaskóla á sínum tíma voru áfangarnir sem ég hafði klárað áður fáir og ekki með frábærri einkunn. Ég fékk sex áfanga metna þegar ég byrjaði aftur árið 2019.“

Gunnur segir að eftir að henni fór að ganga vel í FÁ hafi hana langað til að taka aukaönn í skólanum til að hækka meðaleinkunnina sína, til að vega upp á móti lágum einkunnum sem hún tók með sér í námsferilinn. Það hafi þó ekki allir verið sammála því að það þyrfti. 

Stúdentahópur FÁ frá brautskráningu í gær.
Stúdentahópur FÁ frá brautskráningu í gær. Ljósmynd/Aðsend

Fólk gefist ekki upp

Gunnur segir að sér hafi gengið vel í Covid-19-ástandinu að læra. Algengt er að fólk sem af einhverjum sökum hefur flosnað upp úr námi á menntaskólaárum eigi erfitt með að snúa sér aftur að því. 

Hún segir að það hafi ekki verið auðvelt að snúa aftur í skóla og vill hún koma því á framfæri við ungt fólk í svipuðum aðstæðum og hún var að hafa trú á sjálfu sér og gefast ekki upp. 

131 nemandi útskrifaðist í tveimur útskriftum frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla í gær.  

Alls útskrifaðist 71 nemandi með stúdentspróf, 41 útskrifaðist af heilbrigðissviði skólans, sex af nýsköpunar- og listabraut og loks útskrifuðust fjórir af sérnámsbraut skólans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert