„Við höfum einhvern tíma“

Hraunið rennur niður í Nátthaga.
Hraunið rennur niður í Nátthaga. Ljósmynd/Elvar Ólafsson

Rögnvaldur Ólafsson aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild segir að verið sé að meta stöðuna og mögulegar aðgerðir vegna hraunflæðis í Nátthaga. Í nótt rann hraun yfir eystri varnargarðinn á Fagradalsfjalli og um hádegi í dag fór hraunið að renna í Nátthaga. Varnargarðarnir voru gerðir í því skyni að seinka því að hraun renni í Nátthaga og nái þannig seinna að ljósleiðara sem þar liggur og hringtengir Reykjanes, og að Suðurstrandarvegi. 

„Við tókum stöðuna í morgun og ákváðum þá að hætta þeim framkvæmdum sem voru eftir við garðana og ætlum svo bara að ráða ráðum okkar þegar við sjáum hvernig framvindan verður næstu daga og hvað er ástæða til að ganga langt varðandi framhaldið,“ segir Rögnvaldur í samtali við mbl.is. 

„Við eigum til einhver gögn og svo þarf að meta hvaða viðbótargögn við þurfum til að skoða hvaða möguleikar eru varðandi hraunrennslið og hvað við höfum langan tíma áður en þetta fer að safnast upp og verða of mikið. Við höfum alveg einhvern tíma, Nátthaginn tekur alveg slatta við,“ segir Rögnvaldur. 

Hann segir að miðað við núverandi gögn sé tími til þess að láta helgina líða áður en ákvarðanir verði teknar. 

„Við þurfum núna að meta miðað við núverandi rennsli og stöðu hvað við höfum langan tíma, líka ef það verða einhverjar breytingar í þróuninni á gosinu, hvað það þýðir fyrir okkur. Síðan þurfum við að lesa í landslagið með verkfræðingum og fleirum um hvað sé hægt að gera á svæðinu ef við ætlum í frekari varnaraðgerðir, annaðhvort þá stýringu eða að hlaða upp efni og kaupa tíma eins og við vorum að gera núna, við náðum að seinka þessari þróun um eina viku,“ segir Rögnvaldur 

Tilraunaljósleiðari enn í lagi 

Rögnvaldur segir það jákvætt að varnargarðarnir haldi enn þó að flætt hafi yfir þá. 

„Garðarnir sem slíkir halda enn þá, þeir hafa ekki brostið heldur hefur bara flætt yfir þá og við lítum á það sem jákvætt. Við höfum líka náð okkur í gríðarlegan lærdóm með þessari aðgerð hingað til og munum sennilega búa að henni í framtíðinni, bæði núna ef við ætlum að halda áfram í þessu og svo fyrir framtíðareldgos.“

Verði ákveðið að halda varnaraðgerðum áfram þarf að fá fjármagn. 

„Við erum ekki með fjármagnslið í svona verkefni, þannig að í hvert sinn sem við förum í svona aðgerðir þurfum við að sækja heimild fyrir því og rökstyðja hvað við erum að gera, nema náttúrlega í algjörri neyð,“ segir Rögnvaldur, en ríkisstjórnin samþykkti á þriðjudag að verja 20 milljónum króna í að hækka garðana. 

Flæði hraunið áfram úr Nátthaga mun það fyrst lenda á ljósleiðara Mílunnar, sem hringtengir Reykjanesið, og síðan á Suðurstrandarvegi. Í vikunni var tilraunaljósleiðari grafinn niður fyrir framan eystri varnarvegginn til að mæla áhrif hraunrennslis yfir hann. Hraun flæddi yfir tilraunaljósleiðarann á miðvikudag. 

„Hann er búinn að vera undir hrauni allan þennan tíma og virkar enn þá, sem eru frábærar fréttir. Við höldum áfram að fylgjast með virkni hans, það er að aukast álagið á hann eftir því sem meira hraun og meiri þyngd safnast upp á hann. Fyrstu niðurstöður eru jákvæðar,“ segir Rögnvaldur um ljósleiðarann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert