Andstyggilegur skjálfti

Guðrún Sigurðardóttir.
Guðrún Sigurðardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Eldgosið á Reykjanesskaga hefur víða kallað fram ýmsar minningar um náttúruhamfarir. Fyrir ríflega 45 árum reið til dæmis öflugur jarðskjálfti yfir Kópasker og nágrenni og olli stórtjóni. „Hann var andstyggilegur,“ segir Guðrún Sigurðardóttir, sem fagnaði 100 ára afmæli sínu á fimmtudaginn.

Jarðskjálftinn varð þriðjudaginn 13. janúar 1976 og var talinn vera 6,3 stig á Richter. Jörð rifnaði, þjóðvegurinn inn í Kópasker var víða sprunginn, hafnargarðurinn í þorpinu sprakk á fjórum stöðum auk þess sem fjöldi annarra smárifa myndaðist, vatnsleiðslan fór í sundur á mörgum stöðum og vatnslaust var í þorpinu, tjörn í austurhluta þess hvarf, mikil eyðilegging varð á íbúðarhúsnæði og öðrum mannvirkjum, allt á tjá og tundri, eins og fram kom hjá blaðamanninum Ingva Hrafni Jónssyni í Morgunblaðinu.

Yfir 100 manns bjuggu á Kópaskeri og nokkrir þeirra slösuðust en enginn alvarlega. Margir íbúar flúðu til Húsavíkur eða Raufarhafnar. Guðrún, sem var ein heima þegar skjálftinn varð, komst hvergi vegna vinnu sinnar, en hjónin Guðrún og Ragnar Helgason gegndu starfi stöðvarstjóra Pósts og síma á Kópaskeri.

Skemmdir og hræðsla

„Allt brotnaði sem brotnað gat í húsinu,“ sagði Guðrún í samtali við Ingva Hrafn. Píanóið kastaðist á annan metra frá vegg og rafmagnsorgel færðist einnig úr stað, stór borðstofuskápur fullur af leirtaui féll á gólfið og allt sem í honum var mölbrotnaði.

„Leirtauið með matnum kom í fangið á mér,“ rifjar hún nú upp og segir frá því þegar hún opnaði ísskápinn eftir skjálftann. „Fólk var mjög hrætt, vildi komast í burtu. Farið var með suma til Raufarhafnar, en ég gat ekki farið neitt, því ég sat föst við símann.“

Börn þeirra Guðrúnar og Ragnars, sem var jafnframt organisti og söngstjóri, voru flutt að heiman nema yngsti sonurinn var í heimavistarskóla á Lundi í Axarfirði. Ragnar átti við lasleika að stríða og var á sjúkrahúsinu á Akureyri. Guðrún segir talsímavinnuna annars hafa verið skemmtilega en erfiða. „Það var gaman en álagið var oft ansans mikið því það var lítið um línur.“

Guðrún fæddist og ólst upp á Valþjófsstöðum í Norður-Þingeyjarsýslu, dóttir hjónanna Sigurðar Halldórssonar bónda og Ingunnar Árnadóttur, eiginkonu hans. Guðrún var frumburður þeirra, en hún átti þrjá bræður og eru tveir þeirra eldri látnir. Þau Ragnar kynntust á Akureyri á stríðsárunum og eftir að hún fór aftur heim til foreldra sinna kom hann skömmu síðar á eftir henni og þau náðu saman.

Ættingjar Guðrúnar heimsóttu hana og borðuðu með henni rjómatertu á Hulduhlíð, heimili aldraðra á Eskifirði, í tilefni tímamótanna í liðinni viku, en hún segir ekki gaman að halda upp á afmælið rúmliggjandi og orðin eins léleg og hún sé.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert