Bjóða upp treyju til minningar um Kamillu

Kamilla Eir heitin. Hún lést áður en hún varð sex …
Kamilla Eir heitin. Hún lést áður en hún varð sex mánaða gömul. Ljósmynd/Aðsend

Liverpoolklúbburinn á Íslandi stendur fyrir uppboði á áritaðri treyju Xabi Alonso sem lék með Liverpool árin 2004 til 2009. Allur ágóði þess mun renna til Umhyggju, félags langveikra barna.

Uppboðið er haldið í minningu Kamillu Eirar Styrmisdóttur sem lést 6. maí síðastliðinn, tæplega sex mánaða gömul. Hún barðist bæði við hjartabilun og efnaskiptasjúkdóminn MMA. 

Fjölskylda Kamillu heitinnar eru miklir stuðningsmenn Liverpool og hlaut fjölskyldan mikinn stuðning í veikindum Kamillu og eftir andlát hennar frá Umhyggju.

Treyjan sem boðin er upp til styrktar Umhyggju.
Treyjan sem boðin er upp til styrktar Umhyggju. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Hallgríms Indriðasonar, formanns Liverpoolklúbbsins, leitaði klúbburinn eftir tillögum fjölskyldunnar um hvernig best væri hægt að heiðra minningu Kamillu Eirar. 

Liverpoolklúbburinn hefur í gegnum tíðina styrkt góðgerðarsamtök með sérstökum styrktarsjóð sem félagið ræður yfir. Ákveðið var í þetta sinn að ráðast í uppboð á treyju þar sem hún var til í þeirra fórum en amma Kamillu er í stjórn Liverpoolklúbbsins.

Hægt verður að bjóða í treyjuna með því að senda tilboð á hjalp@liverpool.is og fylgjast með uppboðinu hér

Uppboðið er hafið og mun standa í viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert