Bræðurnir segjast alltaf hafa verið góðir vinir, en Friðrik Dór er yngstur af fjórum systkinum, fæddur 1988 en Jón er fæddur 1985. Illa gekk að ná upp úr þeim krassandi sögum af æsilegum prakkarastrikum því þeir virðast hafa verið nokkuð stilltir og prúðir ungir menn.
Friðrik Dór Jónsson gengur inn á kaffihúsið til fundar við blaðamann, nánast óþekkjanlegur með grímu og derhúfu. Hann tekur niður grímuna og yfir kaffibolla segir hann frá bróður sínum Jóni Jónssyni sem hann lýsir sem miklum öðlingi. Fljótt kemur í ljós að mikill kærleikur ríkir á milli bræðranna.
Var Jón góður við þig?
„Já, Jón hefur alltaf verið góður við mig. Svakalega góður við mig. Ég hef áttað mig á því eftir að ég eignaðist sjálfur börn að það er munur á að vera yngsta systkinið eða eldra. Þegar maður er yngstur þarf maður aldrei að passa upp á neinn,“ segir Friðrik og segir Jón hafa passað vel upp á hann og leiðbeint honum.
„Það var hann sem ýtti mér í Versló til dæmis því honum fannst ég myndi njóta mín vel þar. Hann hefur alltaf haldið í höndina á litla bróður og verið hvetjandi,“ segir hann og segist hafa litið mjög upp til hans í æsku.
„Og ég geri það enn. Hann er mjög flottur og góð fyrirmynd. Það er margt í hans fari sem ég reyni að tileinka mér þótt við séum mjög ólíkir hvað varðar lundarfar. Það er rólegra yfir mér en Jóni. Hann keyrir mikið á jákvæðni og gleði.“
Hefur hann alltaf verið stuðpinni?
„Já, hundrað prósent alltaf. Alveg frá því við vorum hafðir til sýnis í veislum í gamla daga. Hann var þá að syngja og spila á gítar og hann sá um að tala. Ég var þá meira til stuðnings,“ segir Friðrik og segir Jón ófeiminn og ræðinn.
Friðrik segir þá bræður hafa snemma verið setta í tónlistaskóla.
„Jón lærði meira í tónfræði og hljómfræði en ég. Mér gekk betur á trommur og lærði líka smá á píanó. Jón fór strax að læra á gítar og komst langt í klassísku gítarnámi. Svo kenndi hann mér aðeins á gítar þegar ég er um þrettán ára og þá fór ég strax að semja. Þar var hann enn og aftur að hjálpa mér. Við eyddum mörgum stundum í skúrnum þar sem hann var á gítar og ég á trommunum. Tónlistin hefur alltaf spilað stórt hlutverk hjá okkur,“ segir hann og segir þá einnig hafa hlustað mikið á tónlist saman.
„Ég tók mjög hart tímabil þar sem ég hlustaði á rokk, popp og Bítlana og grúskaði mikið. En Jón var meira að hlusta á Jack Johnson og hann er mikill John Mayer-maður. Hann hlustaði líka mjög mikið á Coldplay.“
Friðrik segir íþróttirnar líka hafa bundið þá saman.
Voru þið góðir í körfu og fótbolta?
„Við vorum báðir ofboðslega lélegir í körfubolta. En við vorum báðir í fótbolta sem var aðalsportið okkar. Ég komst í meistaraflokk en hætti svo en Jón átti fínan feril sem fótboltamaður,“ segir Friðrik og segir bróður sinn hæfileikaríkan á mörgum sviðum.
Er hann góður í öllu?
„Já, nánast. Hann er bara geggjaður.“
Var hann aldrei leiðinlegur við þig?
„Jú, jú, hann stríddi mér aðeins. Ég var líka með skap og var auðvitað minni. Ég reyndi stundum að egna hann í slag en þá nýtti hann sér stærðarmuninn og gerði mig alveg tjúllaðan. Mín eina alvöruminning af slagsmálum er saga sem við segjum oft. Ég ætlaði að sparka í hann en hann greip í fótinn á mér og henti mér þannig að ég lenti á bakinu. Þá varð ég alveg brjálaður og hljóp á eftir honum með belti og ætlaði að slá hann með því. En hann náði að komast inn á bað og loka dyrunum áður en ég sveiflaði beltinu og beltið fór í gegnum hurðina. Mamma var ekki ánægð með okkur þá.“
Hverjir eru hans helstu mannkostir?
„Hann er trúr og tryggur sínu fólki og vill allt fyrir alla gera. Það er alltaf gleði í kringum hann og hann er orkumikill. Svo er hann jákvæður og drífandi,“ segir Friðrik og segir Jón alltaf hafa lifað afar heilbrigðu lífi.
„Hann er núna í langhlaupum og er með þá bakteríu.“
Er ekkert þreytandi að eiga bróður sem er alltaf í stuði og fullur af orku?
„Nei, það truflar mig ekki neitt. Ég fæ þessa spurningu oft og ég veit hvað fólk meinar, en hann fer aldrei í það að vera orkusuga.“
Hverjir eru hans gallar? Fer hann aldrei í fýlu?
„Jú, jú, Jón er klárlega með mikið skap. Svakalegt keppnisskap, sem getur verið galli ef maður lætur það hlaupa með sig í gönur,“ segir Friðrik og segist eiga mjög erfitt með að finna einhverja galla í fari bróður síns.
„Hann er ekki handlaginn en við erum báðir í framför; það kemur einn daginn. Hann er ekki mjög sterkur á svellinu í eldhúsinu. Ég held við getum eiginlega sagt að hann sé ömurlegur kokkur. Hann eldar nánast aldrei en þegar hann reynir eitthvað leyfir Hafdís konan hans, sem er frábær kokkur, honum að prófa en hún passar upp á þetta hjá honum.“
Bræðurnir vinna báðir eingöngu við tónlistina og hafa gjarnan snúið þar bökum saman.
„Það hefur aukist hjá okkur síðustu árin. Í framhaldi af því að við gáfum út þjóðhátíðarlag árið 2018 höfum við unnið meira saman. Það er geggjað að hafa bróður sinn með. Þetta er sérstakur bransi og gott að hafa einhvern sem skilur hann,“ segir Friðrik og segist ekki upplifa samkeppni á milli þeirra í tónlistinni.
Við förum að slá botninn í samtalið en blaðamaður er spenntur að heyra hvort ekki leynist einhverjar krassandi sögur úr fortíð Jóns.
„Í rauninni eru engar slíkar sögur. Á tónleikum lifir hann svolítið fyrir að búa til óþægileg augnablik og fara svo út úr þeim með húmor. Hann er mjög góður í því. En varðandi eitthvað krassandi, þá erum við bara ofboðslega leiðinlegir. Við höfum aldrei dottið af sviði eða gert neinar gloríur,“ segir Friðrik og hlær.
Er hann mjög fyndinn?
„Já, hann er uppáhaldsgrínistinn minn, fyndinn og skemmtilegur. Maður hlær mjög mikið í kringum hann. Hann er sá fyndni í fjölskyldunni.“
Næst á dagskrá blaðamanns var að banka upp á hjá Jóni Jónssyni á fallegu heimili hans á Seltjarnarnesi. Jón er úti í garði, sportlegur í hlaupafötum. Hann segist vera að dytta að húsinu en tekur sér hlé til að segja frá litla bróður sínum Friðriki Dór. Það fyrsta sem hann gerir er að bjóða upp á kaffi og rýkur inn í eldhús.
„Ég er að æfa mig undir pressu; ég er fínn að gera kaffi fyrir sjálfan mig en klúðra því oft fyrir aðra,“ segir hann, lætur kaffi renna í bolla og flóar mjólk.
Friðrik sagði mér að þú værir ekkert meistari í eldhúsinu.
„Já, það er reyndar kórrétt. En ég er betri á sumrin því þá opnast grillið og ég get látið að mér kveða!“
Kaffið bragðaðist fullkomlega þannig að Jón kann að minnsta kosti að búa til gott kaffi.
Varstu ekkert afbrýðisamur þegar hann fæddist?
„Nei, í rauninni ekki. Ég er tvíburi á móti stelpu. Ég þekkti ekkert annað en að hafa félaga. Það eru bara ein slagsmál sem ég man eftir. Annars vorum við alltaf góðir vinir,“ segir Jón og á þá við atvikið með beltið sem Friðrik lýsir hér á opnunni.
„Mamma setti svo límmiða yfir gatið. Ég rétt náði að loka dyrunum; annars hefði ég fengið sylgjuna á beltinu í hnakkann á mér.“
„Á unglingsárunum vorum við rosalega mikið saman inni í bílskúr; með trommusettið og rafmagnsgítarinn tveir saman að glamra. Ég kenndi honum þar á gítar upp úr Stóru söngbókinni,“ segir Jón og segir Friðrik hafa verið góðan litla bróður.
„Hann leit upp til mín og vildi standa sig vel en var samt svo sjálfstæður. Hann hefur alltaf verið með miklu sterkari skoðanir en ég. Hann kynnir sér vel málin og tekur afstöðu. Á meðan ég var yfir mig hrifinn af Pottþétt-plötum þá fór hann að grúska og hlusta á gömlu rokkböndin. Hann fór dýpra.“
Hvernig krakki var Friðrik?
„Hann hefur alltaf verið með stærri tilfinningar en ég; sneggri upp. Einhvern tímann vorum við að kenna honum að nota ekki orðið „hata“, því það væri svo sterkt orð. En hann var ljúfur sem lamb en með kannski stærri skapgerð,“ segir Jón og nefnir að talað sé um að „Færeyingurinn komi upp“ þegar rætt er um þá ættingja sem eru snöggir upp.
„Við erum einn áttundi Færeyingar, en það er sterkara í Frikka, enda er hann þjóðhetja í Færeyjum,“ segir Jón.
„Ég var rosalega seinþroska og hann ekki, þannig að á einhverju tímabili munaði ekki miklu á okkur. Hann var mjög vinsæll í skóla; þú getur rétt ímyndað þér með þessi augu. Hann var „augu ársins“ í áttunda bekk,“ segir hann og skellihlær.
„Svo var hann herra Setbergsskóli, tvö ár í röð.“
Varst þú aldrei herra Setbergsskóli?
„Nei, ég var það bara alls ekki! Hef örugglega verið einn og fjörutíu eða eitthvað,“ segir hann og brosir.
Er Friðrik jafn hress og glaður og þú?
„Hann er það iðulega. En verandi orkubolti fer ég ekki fram á að allir séu á sömu línu,“ segir Jón.
„Það er ótrúlega gaman að hafa hann með sér í liði. Það er fáránlegt að hugsa til þess að við séum báðir tónlistarmenn og skemmtikraftar. Þótt það hljómi eins og klisja eru það rosaleg forréttindi að geta spjallað saman um allt, þar sem báðir þekkja leikinn inn og út.“
Stefnduð þið báðir á að verða tónlistarmenn?
„Alls ekki meðvitað. Ég stend í þakkarskuld við Frikka að ríða á vaðið og gefa út lag. Ég var kannski ekki skúffuskáld, en var búinn að vera með efni inni á gamla My Space, en þorði ekki að fara með það lengra. En hann gaf út lagið Hlið við hlið haustið 2009. Sama ár, um vorið, hafði ég útskrifast úr hagfræði frá Boston University. Ég fór í reisu um Bandaríkin þetta haust í tvo mánuði og þegar ég kem heim er Frikki poppstjarna. Veðbankarnir hefðu veðjað á að ég myndi gefa út lag á undan því ég hafði verið að semja og spila á litlum stöðum, en Frikki bara henti þessu út í loftið og fylgdi sínu innsæi. Þetta sló í gegn. Þetta kveikti í mér og hjálpaði að ryðja brautina. Ég gat farið á útvarpsstöðvarnar og sagt: „Ég er bróðir hans Frikka.“ En ég byrjaði ekki með megahittara eins og hann.“
Hvernig myndir þú lýsa hans persónuleika og mannkostum?
„Hann er samkvæmur sjálfum sér og rosalega tryggur og trúr. Hann myndi alltaf taka slaginn fyrir sitt fólk og er frábær eiginmaður og faðir. Hann passar upp á að stelpunum hans, þar með talið Lísu konunni hans, líði vel. Hann er vinur vina sinna og á stóran vinahóp og ég finn að ef eitthvað kemur upp á er leitað til hans. Það er gaman að verða vitni að því hvernig fólk talar um hann,“ segir Jón.
„Mér finnst hann mjög fyndinn og skemmtilegur þótt hann segi að ég sé sá fyndni í fjölskyldunni,“ segir hann og hlær.
„Svo er hann heppinn með þessa náðargáfu sem hann hefur; lagasmíðina. Hún er alltaf einhvern veginn öðruvísi en það sem aðrir eru að gera. Hann er meiri textahöfundur en ég; ég er meira í melódíum. Hann er klár í að setja saman orð og frumlegur og hann er frá náttúrunnar hendi miklu meiri listamaður en nokkurn tímann ég. Hann er byrjaður að mála myndir úti í skúr,“ segir hann og bendir á flott málverk á vegg í stofunni.
„Hann tók upp á þessu í Covid.“
En gallarnir?
„Ef hann fær eitthvað á heilann sem fer í taugarnar á honum, þá vex það stundum of mikið. Annars er hann yfirleitt alltaf í góðu skapi og hann er mjög skynsamur,“ segir Jón og nefnir að báðir hafi þeir stundum rokið upp á fótboltavellinum í gamla daga.
„Við erum smá hættulegir í FH-stúkunni. Ef það gerist eitthvað sem okkur mislíkar þurfum við stundum að telja upp að tíu og stundum heppnast það ekki.“
Eru engin prakkarastrik sem þú manst eftir sem tengjast honum?
Jón hugsar sig vel um og man svo eftir einu.
„Hann var eitt sinn að kynna söngvakeppni í tíunda bekk og fór nakinn upp á svið, með eitt blóm til að hylja sig með.“
Í þeim töluðu orðum gengur Friðrik Dór inn um dyrnar en hann hafði verið boðaður heim til Jóns í myndatöku.
„Er það ekki, Frikki? Varstu ekki nakinn að kynna söngvakeppnina?“
„Jú, vissulega,“ svarar Friðrik og brosir.
Nánar má lesa um Friðrik Dór og Jón Jónsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.