„Hann veit allt um ansi mörg þeirra“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðrún Johnsen, formaður stjórnar Íslandsdeildar Transparency …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðrún Johnsen, formaður stjórnar Íslandsdeildar Transparency International. Samsett mynd

Samkvæmt heimildum Kjarnans ætluðu starfsmenn Samherja sér að safna upplýsingum um stjórnarmenn í alþjóðlegum samtökum sem vinna gegn spillingu, en samtökin höfðu gagnrýnt starfsemi fyrirtækisins.

Þá hafi starfsmennirnir rætt um viðbrögð Samherja vegna viðtals við seðlabankastjóra, og stungið upp á því að afgreiða hann með blaðagrein.

Gagnrýnin rædd í spjallhópnum „PR Namibia“

Í umfjöllun Kjarnans segir að „skæruliðadeild“ Samherja hafi rætt sín á milli um tilkynningu Íslandsdeildar samtakanna Transparency International, þar sem því var lýst yfir að fyrirtækið hefði „fjármagnað áróðursþætti til birtinga, fjámagnað bókaskrif í áróðurstilgangi og haldið úti fordæmalausu túlkunarstríði á sögunni“.

Páll Steingrímsson skipstjóri hafi þannig spurt fólk í spjallhópi með yfirskriftinni „PR Namibia“ hverjir séu í forsvari fyrir Íslandsdeild samtakanna Transparency International. Honum sé þá bent á að spyrja Þorstein Má Baldvinsson forstjóra Samherja. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru í hópnum „PR Namibia“, auk Páls, Arna Bryn­dís McClure, yf­ir­lög­fræðing­ur Sam­herja, og Þorbjörn Þórðarson, lögmaður og ráðgjafi fyrirtækisins.

Páli er svarað: „Hann veit allt um ansi mörg þeirra [...] og Jónas út í guðrunu [Johnsen, formann stjórnar Transparency International á Íslandi]. Hann þekkir eitthvað út í hennar forsögu“. Kjarninn segir að hér sé vísað í Jónas Sigurgeirsson sem rekur Almenna bókafélagið, en það forlag gaf út bókina Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits? sem fjallar m.a. um rannsókn Seðlabanka Íslands á Samherja.

Ætluðu að afgreiða Ásgeir með blaðagrein

Þá eiga þremenningarnir í spjallhópnum að hafa rætt um Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, en vorið 2019 lagði Samherji fram kæru gegn Seðlabankanum og fimm starfsmönnum vegna húsleitar bankans á skrifstofum Samherja árið 2012. Fyrir mánuði ákvað lögreglustjórinn á Vestfjörðum að vísa kærunni frá.

„Ég skil ekki Ásgeir,“ á einn í spjallhópnum að hafa sagt með vísan í viðtal sem birtist í Stundinni, þar sem seðlabankastjóri sagði það vera ótækt að einkafyrirtæki eins og Samherji gæti ráðist að ríkisstarfsmönnum með persónulegum hætti.

Þorbjörn Þórðarson hafi þá sagt að verið sé að athuga hvort „einn alls ótengdur okkur ætli ekki að skrifa“. Þannig væri hægt að „afgreiða Ásgeir í 250 orðum. […] Það væri hægt að gera þrjár mismunandi útgáfur af greininni með svipuðu inntaki en ólíkum stíl og áherslum, og birta í sömu vikunni í þremur ólíkum miðlum. Vísi, Mbl og Fréttablaðinu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert