Hraun rennur yfir báða varnargarðana

Hraunið rennur niður í átt að Nátthaga.
Hraunið rennur niður í átt að Nátthaga. Ljósmynd/Elvar Ólafsson

Hraun rennur nú yfir vestari varnargarðinn á Fagradalsfjalli. Náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að hraun hafi líklega flætt yfir garðinn í nótt eða í morgun. Um lítið magn hrauns sé að ræða. 

Hraun flæddi yfir eystri varnargarðinn aðfaranótt laugardags, en görðunum var komið upp til þess að seinka því að hraun renni niður í Nátthaga og seinna yfir ljósleiðara sem hringtengir Reykjanesið og loks Suðurstrandarveg. Hraun tók að renna í Nátthaga um miðjan gærdaginn. 

„Þetta er ekkert rosalega mikið, smá spýjur sem eru komnar þarna yfir. Það er ekkert líf í þessu þarna. Það virðist ekki flæða neitt þarna eins og er og það sést ekki reykur eða neitt svona á þessu svæði. Mesta virknin er austan megin og þar flæðir enn þá niður í Nátthaga,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert