Sjá má aukna tíðni í álagseinkennum hjá þorra þjóðarinnar eftir veturinn sem einkennst hefur af hertum takmörkunum og tilslökunum á víxl. Gildir þetta þvert á aldurshópa.
Algeng líkamleg álagseinkenni eru vöðvabólga, bakverkir, liðverkir og sinaskeiðabólga. Hugtakið getur þó átt við mein í öllum vöðvum og liðum líkamans.
„Við finnum fyrir svakalega miklum stífleika hjá öllum hópum, það er náttúrulega búið að kyrrsetja þjóðina,“ segir Gauti Grétarsson, sjúkraþjálfari hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur.
Með lokunum í þágu sóttvarnaaðgerða var fólk tekið út úr sinni venjulegu rútínu. Þjálfun og hreyfing varð einhæf en kyrrseta jókst líka umtalsvert.
Heimavinnan hefur einnig haft mikil áhrif enda húkir fólk nú lengi heima, oftar en ekki við slæmar vinnuaðstæður. „Svo á að rífa þetta úr sér með því að fara út að hlaupa eða ganga upp á Esjuna en þá gerir fólk alltaf of mikið,“ segir Gauti.
Í tölfræði frá Sjúkratryggingasjóði má sjá talsverða aukningu á fjölda skipta sem fólk þarf nú að sækja sjúkraþjálfun, eða um 16%. Fjölgun einstaklinga sem leita til sjúkraþjálfara var 3%.
Bati einstaklinga er hægari en áður enda hafa sjúkraþjálfarar ekki getað vísað einstaklingum á hefðbundin endurhæfingarúrræði eins og sund eða æfingar í styrktarsal. Þótt nú sé breytt staða og takmarkanir í lágmarki telur Gauti að þjóðin eigi eftir að súpa seyðið af þessu næstu misseri.
„Ef þú situr bara skakkur í heilt ár, bundinn við stól við slæmar vinnuaðstæður þá lagast það ekki bara með því að opna sundlaugarnar. Skaðinn er skeður.“