Klósettferðir landsmanna á þjónustusvæði Veitna voru nokkuð samræmdar í gærkvöldi meðan á Eurovision stóð ef marka má samantekt Veitna.
„Það má glöggt sjá á tölum yfir rennsli á köldu vatni í vatnsveitu Veitna á meðan á útsendingu keppninnar stóð en notkunin minnkaði umtalsvert á meðan íslenska lagið var í loftinu. Stórir viðburðir sem þessi gefa áhugaverðar upplýsingar um sameiginlegt hegðunarmynstur borgarbúa og væntanlega landsmanna allra,“ segir í tilkynningu frá Veitum.
Leiða megi líkum að því að sveiflurnar í notkun vatns í gærkvöldi hafi helgast af því að fólk hafi létt á sér og sturtað niður fyrir og eftir atriði Daða og Gagnamagnsins, en ekki á meðan.
„Svo virðist sem nokkur fjöldi hafi séð ástæðu til að skreppa á klóið áður en myndbandið með framlagi Íslands, 10 Years, var sýnt og hið sama var upp á teningnum þegar laginu lauk. Á milli þessara tveggja toppa minnkar notkun á köldu vatni umtalsvert enda sátu margir límdir við skjáinn til að fylgjast með flutningnum,“ segir í tilkynningunni.
Sjá má yfirlit yfir vatnsnotkunina hér: