Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðar var kallað út klukkan rúmlega tíu í morgun vegna sinuelds við Akrafjall.
„Við fórum með hluta af liðinu okkar á svæðið og erum búnir að slökkva eldinn. Við erum bara á vakt núna og vöktum svæðið. Þetta var svolítill eldur, alveg um einn hektari sem brann,“ segir Jens Heiðar Ragnarsson slökkviliðsstjóri.
Eldurinn kviknaði á svokölluðu skotsvæði undir Akrafjalli. Hann segir ekki hægt að segja til um hvernig kviknaði í.
„Það er bann við meðferð opins elds en þetta er mikið útivistarsvæði og það er ómögulegt að segja til um hvað hefur gerst. Það er sól og blíða og tiltölulega stillt, þannig að það getur kviknað í. Það hjálpaði okkur líka að það var ekki vindur að ráði,“ segir Jens.