Ísland alveg að ná Bandaríkjunum

Bólusetningar hafa gengið mjög vel hér á landi upp á …
Bólusetningar hafa gengið mjög vel hér á landi upp á síðkastið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlutfall þeirra Íslendinga sem hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19 hér á landi er næstum því jafn hátt og í Bandaríkjunum, samkvæmt tölum Our World in Data Hér á landi er hlutfallið 48% en í Bandaríkjunum 48,22%. 

Hlutfall fullbólusettra er þó töluvert hærra í Bandaríkjunum en hér á landi, eða 38,5% á móti 23,6% fullbólusettum hér. 

Hlutfall þeirra sem hafa fengið að minnsta kosti einn skammt er hæst á Gíbraltar, en þar sýna tölur Our World in Data að fleiri einstaklingar en þjóðin sjálf telur hafi fengið að minnsta kosti einn bóluefnaskammt gegn Covid-19. Rúm 62% ísraelsku þjóðarinnar hafa fengið að minnsta kosti einn skammt og 55,6% íbúa á Bretlandi. 

Fimmtánda sæti hvað varðar fjölda skammta

Ísland er í fimmtánda sæti á heimsvísu hvað varðar fjölda bóluefnaskammta sem hafa verið gefnir hverjum 100 íbúum, samkvæmt talnagrunni New York Times.

Miðað við þær tölur gengur Íslandi best af Norðurlöndunum og eru einungis örfá Evrópuríki ofar á lista yfir þau lönd sem hafa gefið flesta skammta á hverja 100 íbúa. Hér á landi hafa 64 skammtar verið gefnir hverjum 100 íbúum. Fjögur bóluefni gegn Covid-19 eru í umferð hér á landi og þarf að gefa tvo skammta af þremur þeirra til þess að einstaklingur teljist fullbólusettur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert