„Mér finnst spennandi og áhugavert hvað íslenskt kvikmyndagerðarfólk er orðið öflugt víða um heim, ég sé íslensk nöfn alls staðar,“ segir Ásta Hafþórsdóttir, leikgervahönnuður í Ósló í Noregi, sem fyrr í mánuðinum hlaut norsku sjónvarpsverðlaunin Gullruten, eða Gullna gluggann, fyrir förðun í þáttum streymisveitunnar HBO Nordic, Beforeigners, sem runnir eru undan rifjum norska framleiðandans Rubicon.
Ásta hefur ásamt samstarfskonu sinni Dimitru Drakopoulou rekið förðunarfyrirtækið Makeup Design Studio um árabil, er menntuð í fagi sínu í Svíþjóð og hefur annast förðun fyrir fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda á ferli sínum, bæði á Íslandi og í Noregi, en þar má, auk Beforeigners, nefna Norsemen, Welcome to Utmark, The 12th Man, Skjelvet, Bølgen, Home for Christmas og íslensku kvikmyndirnar 101 Reykjavík, Brim og The Good Heart ásamt mörgum fleirum.
Ásta varð fyrir því óláni, rétt eftir að henni var tilkynnt að hún hefði unnið Gullruten í viðtali á Zoom, að fótbrotna er hún féll af reiðhjóli í norsku höfuðborginni og fékk verðlaunastyttuna afhenta á spítalanum. Hún er nú komin heim, er á góðum batavegi og sat við pítsugerð þegar mbl.is náði tali af henni. „Ég verð á hækjum í sex vikur, en þarna hefði getað farið verr, ég var ekki með hjálm,“ viðurkennir leikgervahönnuðurinn hispurslaust.
Ásta hlaut tvær tilnefningar til verðlaunanna í ár, fyrir Beforeigners og þættina Søstrene ser på TV, en hefur reyndar hlotið Gullruten áður, árið 2018. „Þar sem ég deildi verðlaununum með búningahönnuði. Á þeim tíma voru þetta ekki orðnir aðskildir flokkar,“ segir hún frá. „Í þakkarræðunni minni þar lagði ég einmitt áherslu á að nú væri tímabært að fara að deila þessu upp í tvo flokka svo við værum ekki alltaf að bera saman epli og appelsínur.
Á sama tíma vorum við að berjast fyrir því að fá inn sérstaka flokka í kvikmyndaverðlaunin Amanda, fyrir hvort tveggja smink og búninga, sem hefur ekki verið áður. Það var í fyrsta skipti í fyrra, sem veitt voru Amanda-verðlaun í þeim flokkum. Ég var mjög stolt af því að fá að vera í hópi þeirra fyrstu sem voru tilnefndir í þessum verðlaunaflokki eftir að hafa tekið þátt í þeirri baráttu.“
Þá má geta þess að Ásta var einnig í hópi þeirra sem þrýstu á að Edduverðlaunin á Íslandi væru líka veitt í þessum flokki á sínum tíma.
Hún hefur alls hlotið þrenn verðlaun fyrir leikgervahönnun sína í Noregi, en segir um tímamót að ræða nú, vorið 2021, þar sem þetta séu fyrstu verðlaunin sem hún hlýtur fyrir leikgervi, en deilir ekki með búningahönnuði. „Ég tek það auðvitað fram að ég er ekki ein, ég er með mitt teymi í kringum mig,“ útskýrir hún.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir Ástu og hennar starf í faginu að hljóta stór verðlaun á borð við Gullruten, sem hafa verið veitt í Noregi síðan 1998?
„Það er auðvitað mjög hvetjandi og mikil viðurkenning, þar sem ég er enn dálítill útlendingur, þótt ég sé búin að búa hér í 11 ár. Að fá verðlaun á borð við þessi er mikil viðurkenning frá kvikmyndasamfélaginu hér og ekki minnst mikil viðurkenning fyrir fagið í heild sinni, þar sem leikgervahönnun í kvikmyndum og sjónvarpi á norðurslóðum hefur vaxið með miklum hraða síðustu árin. Við getum orðið óhikað borið okkur saman við hönnuði sem eru á heimsmælikvarða.“
Eins og fyrr segir voru niðurstöður dómnefndar Gullruten gerðar heyrum kunnar á Zoom vegna alkunnra aðstæðna í heiminum og Ástu tilkynnt á fjarfundi, þar sem hún var stödd á heimili sínu, að henni hefðu fallið verðlaunin í skaut, en myndskeið af þessari sérstöku opinberun má sjá fyrir neðan viðtalið.
„Ég var nú pínu græn þarna. Þeir sendu mér tölvupóst og spurðu hvort ég væri ekki til í að spjalla aðeins við þá á Zoom um tilnefninguna. Ég hefði náttúrulega átt að leggja saman tvo og tvo og fatta að ég ætti von á verðlaununum en það gerði ég auðvitað ekki,“ segir Ásta og hlær.
Henni hafi þó þótt óþægilegt að vera ekkert búin undir það sem í vændum var. „Ég gleymdi náttúrulega mörgum sem ég hefði viljað þakka, þar sem ég var með mjög stórt teymi með mér á álagsdögum og margt samstarfsfólk sem studdi við bakið á mér. Ég er mjög þakklát fyrir allt þetta fólk og hefði gjarnan viljað nefna alla á nafn, ekki síst til að undirstrika að í svo stóru verkefni þarf stóran hóp af fagfólki í hverri deild. Ég á þessi verðlaun ekki ein.
Þáttastjórnandinn spurði mig hvernig mér fyndist nú að vera tilnefnd og ég sagði bara að mér fyndist það æðislegt og frábært og þá lyfti hann upp styttunni og sagði „en hvernig finnst þér að hafa unnið?“ þannig að það var enginn leiðari inn í þetta,“ segir Ásta sem þó vafðist ekki tunga um tönn í svari sínu um fjarfundabúnaðinn, að minnsta kosti að mati þess sem hér skrifar.
Uppákoman á Zoom var ekki í beinni útsendingu, en sýnd í norsku sjónvarpi nokkru síðar sem bauð upp á nýja togstreitu. „Ég þurfti að halda þessu leyndu fyrir kollega mínum sem var líka tilnefnd og hún var að spyrja mig hvort ég hefði heyrt eitthvað, eða vissi hvenær ætti að taka viðtöl og svo framvegis og ég gat náttúrulega ekki sagt neitt sem var hálfvandræðalegt. Þetta var svo sýnt þegar ég var á spítalanum og ég fékk styttuna senda þangað sem var alveg absúrd,“ segir Ásta glettnislega.
Hversu mikil vinna – og ekki síst hvernig vinna – er það fyrir Ástu og hennar fólk að annast förðun fyrir þætti á borð við Beforeigners? Yrkisefnið þar er fólk úr grárri forneskju sem birtist á dularfullan hátt í Ósló nútímans, en meðal leikenda í þáttunum eru Íslendingarnir Ágústa Eva Erlendsdóttir og Jóhannes Haukur Jóhannesson.
„Þetta var náttúrulega gríðarlega stórt verkefni og um leið ofboðslega spennandi „konsept“, að fólk úr fortíðinni, steinaldarfólk, víkingar og fólk frá 19. öld, dúkki upp hérna í Ósló og við fengum þar með að „brainstorma“ um hvernig fólk frá steinöld hefði litið út, sem gaf mér heilmikinn möguleika á að spinna töluvert og nota um leið blöndur úr frumbyggjakúltúr héðan og þaðan úr heiminum. Maður fékk að fara svolítið um víðan völl og búa sér til sínar eigin hugmyndir, en svo auðvitað lentum við í því að undirbúningstíminn var stuttur, allt of stuttur, mikill fjöldi leikara og eitthvað rúmlega þúsund aukaleikarar, þannig að þetta var ansi töff, mikið álag og við vorum fáliðuð, en ég er mjög stolt af þessu, mjög stolt af útkomunni þótt auðvitað finnist manni maður alltaf geta gert betur og vildi alltaf hafa meiri tíma,“ segir Ásta.
Heilu götunum í Ósló hafi verið lokað fyrir tökur á þáttunum sem fóru nánast að öllu leyti fram í norsku höfuðborginni, en einnig að hluta í Litháen. Vinnudagarnir hafi verið langir og í mörg horn að líta. „Þetta er sko enginn glamúr,“ segir leikgervahönnuðurinn kíminn. „Álagið við þetta verkefni er með því mesta sem ég hef upplifað á mínum ferli.
Við kvikmyndagerðarfólk á Norðurlöndum stöndum núna frammi fyrir að aðlagast mun stærri framleiðslum á sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, meðal annars fyrir stóru streymisveiturnar HBO, Netflix og fleiri. Áður fyrr á Íslandi var ég yfirleitt ein, með í mesta lagi einn aðstoðarmann og ímynda mér stundum enn þann dag í dag að það sé kannski alveg nóg, þótt verkefnin hafi margfaldast í stærð og lengd tökutíma.
En það er mjög spennandi að taka þátt í þessari þróun og fá um leið að vaxa, læra og bæta við kunnáttuna og ekki síst að fá að vinna með stórum hópi af fólki sem er allt „brilliant“, hver á sinn hátt.“
„Núna er ég auðvitað bara í sjúkraleyfi eftir þetta slys, en ég var á leið til Madríd í tökur hjá AppleTV fyrir seríu sem er búin til af Ylvis [norsku bræðrunum Bård og Vegard Ylvisåker sem öðluðust nánast heimsfrægð fyrir lag sitt What does the Fox say? hér um árið]. Þeir gerðu seríu, sem ég fékk Gullruten fyrir, ásamt búningahönnuði, fyrir tveimur árum sem heitir Stories from Norway en nú eru þeir að gera Stories from Earth fyrir AppleTV. Fyrri lotan er núna í Madríd og svo verður sú seinni í haust úti um víðan völl ef Covid leyfir,“ segir Ásta Hafþórsdóttir að lokum, handhafi Gullruten 2021 fyrir leikgervahönnun, en bætir því þó við að ýmislegt annað sé í bígerð og hún virðist ekki þurfa að kvíða verkefnaskorti þegar hækjunum sleppir.