Fjallgöngumennirnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson náðu á topp Everest á ellefta tímanum í gærkvöldi. Félagarnir stóðu á tindinum klukkan 4:30 að staðartíma og eru nú komnir niður í fjórðu búðir. Allt hefur gengið vel en dagurinn var kaldur að því er segir í færslu á rakningarvef þeirra félaga, Með Umhyggju á Everest.
Í viðtali við mbl.is fyrr á árinu kom fram að þeir Sigurður og Heimir eiga það sameiginlegt að hafa átt foreldra sem glímdu við mikil veikindi. Reynslan var mjög krefjandi en um leið hefur hún leitt til þess að þeir vilja láta gott af sér leiða. Þeir höfðu samband við Umhyggju og heilluðust af því góða starfi sem félagið vinnur fyrir fjölskyldur langveikra barna.
„Við horfum á þetta þannig að við séum að klífa fjallið með Umhyggju. Ætlum að hleypa þeim inn í og leyfa þeim að taka þátt bæði í undirbúningnum og leiðangrinum. Við ætlum að reyna að virkja fjölskyldur langveikra barna með okkur. Ef langveik börn hafa áhuga á því að senda inn drauma til okkar ætlum við að taka þá með okkur í ferðalagið, lesa þá upp á fallegum stöðum og reyna að taka þá með okkur alla leið upp á topp Everest,“ segir Sigurður.