Pavel setti Íslandsmet á meðan þyrlan leitaði

Paweł lentur við Seljalandsfoss.
Paweł lentur við Seljalandsfoss. Ljósmynd/Paweł

Paweł Sztuba setti nýtt Íslandsmet í svifvængjaflugi á föstudaginn. Á meðan leitaði þyrla Landhelgisgæslunnar hans enda hafði samband við hann slitnað á miðju flugi. 

Svifvængjaflug (e. paragliding) er flugíþrótt þar sem notast er við svifvængi sem líkjast ílagri fallhlíf. „Þetta er eins og að fljúga á flugvélarvæng,“ útskýrir Paweł í samtali við mbl.is.

Leiðin sem Paweł flaug.
Leiðin sem Paweł flaug. Mynd/Paweł

 

Metið sem Paweł setti var tæplega 100 kílómetra flug. Hóf hann sig á loft við Lága­fell á Uxa­hryggja­leið, ná­lægt Þing­völl­um, og sveif alla leið að Seljalandsfossi. 

Hann segir að ekki sé alltaf keppt í fjarlægðum, en sú íþrótt sem hann stundar kallast á ensku cross country flying og þar sé árangurinn mældur í fjarlægðum. 

Einnig er hægt að taka þátt í keppnum þar sem ákveðin flugbraut liggur fyrir og besti tíminn gildir. 

Útsýnið var ekki sem verst.
Útsýnið var ekki sem verst. Ljósmynd/Paweł

 

Flogið í fullkomnum aðstæðum 

Paweł, sem flýgur mest með vini sínum Hans Guðmundssyni, segir að oft geti íslensk veðurskilyrði flækst fyrir við svifvængjaflug. Á föstudaginn hafi þó verið frábært veður, gott hitastig, lítill vindur og mikið og sterkt uppstreymi. 

„Það sem var furðulegast var að það var engin hafgola. Það er það sem yfirleitt truflar mest,“ segir Paweł.

Ljósmynd/Paweł

„Þetta var stórkostleg tilfinning. Þegar ég byrjaði flugið trúði ég varla hvað skýjahæðin var mikil, um 2.500 metrar, og ég náði upp í skýin. Ég trúði þessu varla, svo var þetta svo fallegt.“

Hann segir að aðstæður frá maí og fram í miðjan júní séu bestar til að stunda svifvængjaflug vegna sólarinnar og uppstreymis.

„Þú þarft að vera á réttum stað á réttum tíma og réttum árstíma til að ná svona flugi. Allt þarf að smella saman.“

Ljósmynd/Paweł
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert