„Þakklátur fyrir að vera á lífi“

Útsýni úr kláfinum sem féll í gær.
Útsýni úr kláfinum sem féll í gær. Ljósmynd/Aðsend

Íslensk hjón höfðu ferðast með kláfnum sem hrapaði til jarðar á Ítalíu í gær, degi áður en slysið varð. 

Maðurinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið, hafði samband við mbl.is en hann er ásamt eiginkonu sinni í fríi á Ítalíu.

„Við fórum þarna upp fyrir tveimur dögum. Það var mjög fallegt og allt það en ég sagði akkúrat við eiginkonu mína: Guði sé lof að það voru ekki fleiri í kláfnum þegar við fórum,“ segir maðurinn í samtali við mbl.is.

Fjór­tán manns lét­ust eft­ir að kláf­ur féll til jarðar í fjallinu Mottarone á Norður-Ítal­íu í gær.

Þau voru þá komin til borgarinnar Stresa. „Við vorum á leiðinni upp á lestarstöðina í Stresa til Mílanó gær þegar við sjáum fullt af sjúkrabílum og fleira bruna fram hjá okkur,“ segir hann.

Fallegt útsýni í Mottarone.
Fallegt útsýni í Mottarone. Ljósmynd/Aðsend

Maðurinn segir að svo virðist sem línan sjálf hafi slitnað og neyðarbremsur sem eru sitthvorumegin við kláfinn hafi verið bilaðar.

Hann segir skjóta skökku við að ferðamenn séu látnir borga sérstakan „borgartaxta“ á hvern haus sem gistir á svæðinu en peningunum sé ekki betur varið. „Það er greinilegt að þessir peningar rata ekki í viðhald á svæðinu.“

„Ég verð að viðurkenna að hvorugt okkar var með mikla öryggistilfinningu á leiðinni upp og niður. Við meira að segja töluðum um hvort þetta væri ekki örugglega öruggt og töldum að svo væri þar sem hvorugt okkar man eftir einhverju svona slysi,“ segir maðurinn og bætir við að nú sé hann bara þakklátur fyrir að vera á lífi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert