Aðeins tveir bæst í hópinn í dag

Fosshótel Reykjavík.
Fosshótel Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmlega 500 manns dvelja nú á sóttkvíarhótelum, auk þess sem 29 eru í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg.

Það sem af er degi hafa aðeins tveir nýir fengið gistingu, enda koma mestmegnis bólusettir Bandaríkjamenn með morgunflugi, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, forstöðumanns farsóttarhúsa Rauða krossins.

Búast má við fleira fólki seinnipartinn í dag frá meginlandi Evrópu.

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins. mbl.is/Sigurður Bogi

Mest hafa yfir 600 manns gist í sóttkvíarhótelum hérlendis. „Svo getur þetta farið að minnka töluvert núna þegar það hættir að vera skylda að koma,“ segir Gylfi Þór.

Þar á hann við að um næstu mánaðamót verður felld úr gildi skyldudvöl í sóttvarnahúsi vegna komu frá hááhættusvæði. Ástæðan er sú að nýgengi smita á landamærunum hefur farið stöðugt lækkandi frá því skyldudvöl í sóttvarnahúsi tók gildi. Þá hefur Evrópuríkjum fækkað á lista yfir hááhættusvæði.

Hótel Rauðará ekki notað

Eins og staðan er núna er ekki verið að nýta Hótel Rauðará fyrir fólk sem kemur að utan en það gæti þó breyst. Hótelin sem eru í notkun eru Fosshótel Reykjavík, Hótel Klettur og Storm Hótel, ásamt einu húsi á Egilsstöðum og farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg, þar sem fólk sem er smitað af Covid-19 gistir eða hefur verið útsett innanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert