Galli í forritun olli því að einstaklingur undir lögaldri gat keypt áfengi í gegnum vefverslun ÁTVR. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vínbúðinni.
Arnar Sigurðsson vínkaupmaður benti á það í Sprengisandi á sunnudag að ungmenni undir lögaldri gætu keypt áfengi á vefsíðu ÁTVR og sýndi kvittun því til stuðnings frá einstaklingi fæddum árið 2001. Arnar heldur úti vefverslun með áfengi sem er með lager í Reykjavík en skráð í Frakklandi, en ÁTVR útbýr nú beiðni um lögbann á hendur vefverslunum sem bjóða áfengi í smásölu hér á landi.
Í tilkynningu ÁTVR kemur fram að ungmenni undir lögaldri eigi ekki að geta keypt áfengi í vefverslun Vínbúðarinnar. Einstaklingurinn sem Arnar vísaði til hafi komist fram hjá öryggiskerfinu vegna galla í forritun og það hafi verið eina tilfellið þar sem kerfið virkaði ekki sem skyldi. ÁTVR biðst afsökunar og ætlar að bæta úr gallanum.
Þá er tekið fram að ekki hafi verið búið að afhenda vöruna sem viðkomandi keypti. Við afhendingu væri gerð krafa um að sýna skilríki og að hafa náð 20 ára aldri.