„Ég hef verið í hestamennsku frá því ég man eftir mér og öll fjölskylda mín. Hestafræðinámið á Hólum var eina námið sem mér leist á, það kom ekkert annað til greina,“ segir Valdís Björk Guðmundsdóttir sem fékk helstu verðlaun sem veitt eru við lok BS-náms í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum.
Tuttugu nemendur útskrifuðust úr hestafræðideild Hólaskóla í ár. Verðlaun voru afhent við reiðsýningu nemenda sem fram fór síðastliðinn laugardag og var felld inn í dagskrá hestaíþróttamóts Ungmennasambands Skagafjarðar og hestamannafélagsins Skagfirðings sem fram fór á mótssvæðinu á Hólum.
Valdís Björk fékk verðlaunagripinn Morgunblaðshnakkinn fyrir besta heildarárangur í öllum reiðmennskuáföngum í náminu og verðlaun Félags tamningamanna fyrir besta árangur í lokaprófi í reiðmennsku.
Valdís Björk er alinn upp í Kópavogi en er ættuð úr Borgarfirði. Afi hennar, Skúli Kristjónsson í Svignaskarði, var einn þekktasti hestamaður landsins á sinni tíð.
Hún hefur mikinn áhuga á hestum, eins og allir í fjölskyldunni, og hefur keppt mikið í yngri flokkum og einnig eftir að hún fluttist í fullorðinsflokk. Hún hefur komist í úrslit á mörgum mótum, síðast á Reykjavíkurmeistaramótinu á síðasta ári. Þar var hún með Fjólu frá Eskiholti 2 sem hún segir að hafi komið sér í gegnum námið á Hólum. Aðspurð segir hún að miklu máli skipti fyrir árangur í náminu að vera vel hestaður.
Hestafræðin er þriggja ára nám. Valdís segir að þetta hafi verið afar lærdómsríkur og skemmtilegur tími. „Ég kynntist fullt af góðu fólki og fékk góða kennslu sem ég mun taka með mér út í lífið.“
Valdís ætlar að nota þekkinguna og reynsluna til að stunda tamningar og þjálfun. Hún vinnur sjálfstætt að verkefnum og hefur aðstöðu í Brekku í Biskupstungum ásamt kærasta sínum, Jóni Óskari Jóhannessyni. Aðstaðan er góð, nýtt hesthús og reiðhöll.