Engir fleiri hafa greinst með Covid-19 úr íslenska Eurovisionhópnum enn sem komið er. Þetta staðfestir Rúnar Freyr Gíslason, fjölmiðlafulltrúi íslenska hópsins, við mbl.is en þau komu til landsins á sunnudaginn síðasta.
„Síðustu þrír meðlimir hópsins eru nú í flugi á leið til landsins. Þau munu öll fara í skimun á landamærunum og þaðan líklegast í sóttkví. Það er ekki komið í ljós hvernig fer með þessi tvö sem smituðust úti en við hlýðum að sjálfsögðu fyrirmælum lögreglu og sóttvarnayfirvalda í einu og öllu,“ segir hann.
„Þau ellefu sem komu heim á sunnudaginn eru nú í sóttkví fram á sunnudag en þá fara þau aftur í skimun. Ef niðurstöðurnar á sunnudaginn verða neikvæðar þá eru þau laus úr sóttkví, fyrir utan Daða og Árnýju Fjólu,“ segir hann en þau hjónin eru nú bæði í einangrun vegna jákvæðrar niðurstöðu Árnýjar við komuna heim.
„Hópurinn hefði auðvitað viljað að þetta færi öðruvísi, en jákvæðu fréttirnar eru þó þær að enginn þeirra smituðu sýnir einkenni eða er veikur. Það er aðalatriðið,“ segir hann að lokum.