Fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur verið samþykkt með 34 atkvæðum. Ellefu þingmenn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.
Frumvarpið snýst um að setja á laggirnar tímabundið styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla til að styrkja stöðu þeirra. Miðað er við að hægt sé að sækja um stuðning vegna allt að 25 prósent rekstrarkostnaðs við ristjórnarstörf fjölmiðils. Þar undir fellur beinn launakostnaður starfsfólks og verktakagreiðslur aðila sem vinna að fréttum. Hægt verður að sækja um til 1. ágúst.
Sú breyting var gerð á frumvarpinu í annarri umræðu að styrkjakerfið verði tímabundið og gildi einungis til 1. desember 2021 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni árið 2020. Því er ekki um að ræða grundvallarbreytingu á rekstrarumhverfi fjölmiðla nema til skamms tíma.
Í meirihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar sem fjallaði um málið kom fram að meirihlutinn teldi æskilegt að fyrirkomulag stuðningskerfisins væri tekið til nánari skoðunar og því ætti frumvarpið aðeins að ná yfir styrki vegna síðasta árs.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu eða sátu hjá. Sigríður Á. Andersen greiddi atkvæði gegn því en Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason greiddu ekki atkvæði. Þá var Vilhjálmur Árnason fjarverandi. Aðrir þingmenn flokksins greiddu atkvæði með frumvarpinu.
Þingmenn Samfylkingarinnar kusu flestir með frumvarpinu að undanskyldum Maríu Hjálmarsdóttur og Ágústi Ólafi Ágústssyni sem voru fjarverandi. Þingflokkur Miðflokksins greiddi allur atkvæði gegn frumvarpinu en enginn þingmaður Viðreisnar greiddi atkvæði.