Gæti flætt yfir gönguleiðina

Hraun gæti flætt yfir fjölfarna gönguleið í Geldingadölum.
Hraun gæti flætt yfir fjölfarna gönguleið í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er útilokað að hraun taki að flæða yfir fjölfarna gönguleið sem leiðir upp að eldgosinu í Geldingadölum. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is

„Það gæti alveg gerst. Ekki að það fari að koma upp annað gos en ef hraunið úr yfirstandandi gosi heldur áfram að flæða eins og það gerir þá fer að flæða á gönguleiðina. Svo gæti flætt út um skarðið þar sem maður gengur upp á kollinn á fjallinu, á móti gígnum. Það mun koma að því að hraunið kaffærir skarðið og tekur að flæða þar út úr Geldingadölum. Hraunið þykknar hratt og það á ekki nema fimm metra eftir þar til það nær upp að skarðinu. Þetta er allt breytingum undirorpið,“ segir Magnús.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­vörn­um, reiknar með því að fundin verði ný gönguleið komi þessi sviðsmynd til með að verða að veruleika. 

„Ég á ekki von á því að fólk sæki minna í gosið. Við þurfum bara að gera ráð fyrir því að það sé hægt að gera það með sem öruggustum hætti. Það er alveg viðbúið að skoða þurfi nýjar leiðir,“ segir Rögnvaldur.

Samkvæmt gögnum Ferðamálastofu hafa rúmlega þrettán þúsund manns lagt leið sína upp að gosi undanfarna sjö daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert