Ástæðan fyrir hlýrra loftslagi á landinu næstu daga er að snúið hefur til suðlægra átta eftir að beðið hefur verið eftir því í rúman mánuð að hæðin yfir Grænlandi gefi eftir.
„Hún er núna við Jan Mayen og leiðinni til suðausturs,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, beðinn um að útskýra hvaðan þetta hlýja loftslag kemur.
Hann bætir við að lægð við Hvarf á Grænlandi ýtir að okkur suðlægum áttum þaðan. Hæðin snýst síðan hinn hringinn og dregur milda loftið með sér norður eftir landinu líka. „Hæðin og lægðin eru báðar að draga mildara loft hérna upp eftir og þá kemst mun hlýrra loft að landinu en hefur verið síðan fljótlega eftir páska,“ greinir hann frá.
Óli Þór reiknar með 14 til 15 stiga hita í flestum landshlutum á morgun, fimmtudag og föstudag. Strax á fimmtudag gæti hitinn farið í 17 til 18 stig á öllu Norðurlandi, allt frá Héraði og vestur í Húnavatnssýslu.
Rigning er síðan í kortunum syðst á landinu á föstudaginn, sem eru góð tíðindi í ljósi hættu af völdum gróðurelda að undanförnu.