Liðsmenn Sigur Rósar voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun af ákærum um stórfelld skattsvik. Jón Þór Birgisson, söngvari hljómsveitarinnar, var einnig sýknaður af skattsvikaákæru í tengslum við félag hans Frakk.
Þetta staðfestir Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður núverandi og fyrrverandi liðsmanna Sigur Rósar en RÚV greindi fyrst frá niðurstöðunni.
Allir fjórir liðsmennirnir voru með samskonar ákærur en Jónsi var með viðbótarákæru tengda Frakki.
„Þetta er löngu tímabær niðurstaða. Þetta er mjög vel rökstudd og afgerandi sýkna, bæði varðandi þessi atriði sem voru sameiginleg hjá öllum fjórum og síðan komu lög sem tóku gildi 1. maí sem banna hreinlega tvöfalda refsingu í skattamálum með mjög afgerandi orðalagi,“ greinir Bjarnfreður frá.
Hann telur ljóst að ekki hafi verið annað hægt en að sýkna í málinu af þessum sökum og segir að það kæmi sér mjög á óvart ef málinu yrði áfrýjað til Landsréttar.
Hann segir sýknu Jóns Þórs vegna Frakks einnig vera mjög afgerandi. Farið sé yfir af hverju hann uppfylli ekki saknæmisskilyrðin um stórfellt gáleysi og útskýrt að fleiri en ein ástæða sé fyrir sýknu hans.
Máli Sigur Rósar var vísað frá héraðsdómi á sínum tíma vegna sjónarmiða um tvöfalda refsingu. Málið fór eftir það til Landsréttar sem taldi að héraðsdómur þyrfti að taka málið til efnislegrar meðferðar. Var meðal annars vísað til þess að í máli fjórmenninganna hefðu þeir ekki sætt álagi vegna stórs hluta þeirra tekna sem þeir voru ákærðir fyrir að hafa vantalið.