Metur gögnin líkleg til sakfellis

Frá þingfestingu í dag. Einn sakborninganna í málinu mætti í …
Frá þingfestingu í dag. Einn sakborninganna í málinu mætti í dómssal. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Að minnsta kosti var það mat ákæruvaldsins að það væri ástæða til að gefa út ákæru á hendur þessum fjórum sakborningum,“ sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari spurð út í afstöðu þriggja sakborninga í Rauðagerðismálinu svokallaða. 

Þrír af fjórum sakborningum neita sök samkvæmt ákæru þar sem þau eru ákærð fyr­ir að hafa svipt Arm­ando Beqirai lífi laug­ar­dag­inn 13. fe­brú­ar 2021.  

Fyrir liggur játning Angj­el­ins Sterkajs um að hafa skotið Arm­ando Beqirai. Hann játaði sök við þingfestingu en sagðist hafa verið einn að verki.

Sakborningar öruggir með sig

Ákærðu eru þrír karl­menn á fer­tugs- og fimmtu­dags­aldri og ein kona á þrítugs­aldri.

Við þingfestingu málsins í morgun voru hinir tveir ákærðu karlmennirnir viðstaddir, annar í fjarfundi (ásamt Angjelin) og hinn í dómssal. Báðir neituðu þeir sök og mátti skynja öryggi í þeirra máli. 

„Við metum gögnin þannig að þau séu nægilega líkleg til sakfellis. Svo er það dómstólanna að meta það,“ segir Kolbrún.

Einn í varðhaldi

Angjelin er í gæsluvarðhaldi vegna manndrápsins í Rauðagerði en hinn maðurinn er í afplánun ótengt Rauðagerðismálinu. Þannig situr aðeins einn í gæsluvarðhaldi vega manndrápsins í Rauðagerði, einn var þegar í afplánun og hin tvö eru í farbanni.

Konan sem er ákærð mætti ekki fyrir dóm heldur mætti verjandi hennar með umboð til að taka afstöðu til ákærunnar við þingfestinguna í morgun. Hún neitaði sök í málinu. 

Stefnt verður að málflutningi loknum fyrir héraði hinn 13. september og frestur verjanda til að skila greinargerðum rennur út þremur vikum fyrr.

Enginn Íslendingur ákærður

Á blaðamannafundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þegar tilkynnt var um játningu í málinu var talað um tengingar við Íslendinga og skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. Var ekki ástæða til að gefa út ákæru á hendur neinum Íslendingum?

„Nei, þetta er bara staðan. Málið er talið líklegt til sakfellis á þessi fjögur þannig að það eru bara þau sem eru ákærð,“ segir Kolbrún.

Mennirnir þrír sem ákærðir eru eru albanskir. Konan er portúgölsk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert