Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir stöðuna nú ólíka þeirri sem var þegar reistir voru varnargarðar ofan við Nátthaga. Því sé ekki enn hægt að segja til um það hvort reistir verði nýir garðar neðan við Nátthaga, hve háir þeir yrðu né hve mikinn tíma þeir myndu kaupa viðbragðsaðilum. Hann segir að áform um nýjan varnargarð fyrir neðan Nátthaga nú vera í skoðun.
„Það er bara eitt af því sem var skoðað núna í vikunni bæði þetta varðandi hvaða tíma við höfum þangað til Nátthagi fyllist og hvaða möguleikar eru í stöðunni gagnvart þá frekari varnargörðum eða einhverju öðru.“
Að sögn Rögnvaldar eru næstu skref óljós.
„Í augnablikinu er ekkert augljóst hvað er hægt að gera í vörnum og það þarf að finna þá staði sem henta best og það geta verið fleiri en einn staður og þá þarf að vega og meta kosti og galla hvers og eins,“ segir Rögnvaldur.
„Þetta eru allt hlutir sem að við eigum eftir að svara og erum að leita að svörunum við. Það er ómögulegt að segja á þessum tímapunkti. Það fer allt eftir landslaginu og hvað er talið henta. Þegar við fórum í varnargarðana upp frá þá lá það svolítið ljóst fyrir í hvaða hæð við gætum farið með þá, hvar þeir voru og annað. Það var miklu einfaldara að fara í þá framkvæmd því hún var lítil, enda tveir stuttir garðar sem fljótlegt var að setja upp. Þar þurfti líka að bregðast hratt við því við héldum að við hefðum lengri tíma. Auðvitað breyttust aðstæður við gosið og allt í einu var tíminn að hlaupa frá okkur svo við þurftum að bregðast hratt við. Þetta lítur aðeins öðruvísi út núna,“ segir Rögnvaldur.
Samkvæmt Rögnvaldi hefur engin kostnaðaráætlun verið útbúin fyrir framkvæmdunum enda engin forsenda fyrir því til staðar.
„Okkur vantar í rauninni allt til að útbúa einhverja kostnaðaráætlun. Við gátum gert það uppfrá því þá var búið að hanna mannvirkin, ákveða hvar hún ætti að vera og hversu stór hún yrði og þá er einfaldara að reikna út kostnað,“ segir Rögnvaldur.
Þegar blaðamaður mbl.is innti eftir því hvort sækja þurfi tilskilin leyfi frá Umhverfisstofnun fyrir framkvæmdum af þessu tagi segir Rögnvaldur það alltaf betra.
„Það er alltaf æskilegra að fara leyfisleiðina eins og hægt er og við vorum byrjuð á því þarna upp frá en svo bara hljóp tíminn frá okkur. Það er eitt af því sem við þurfum að skoða, hvaða leyfi við þurfum að afla og hjá hverjum,“ segir hann að lokum.