Áfrýjunarnefnd útboðsmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg beri að bjóða út innkaup sín á raforku.
Nefndin kemst að þessari niðurstöðu í kjölfar þess að fyrirtækið Íslensk orkumiðlun ehf. kærði Reykjavíkurborg til nefndarinnar í ársbyrjun 2020 og krafðist þess að samningur milli hennar og Orku náttúrunnar (ON) yrði gerður óvirkur auk þess sem borginni yrði gert að bjóða innkaupin út.
Við meðferð málsins kallaði kærunefndin eftir núgildandi samningi milli Reykjavíkurborgar og ON og spurði hvort tilkynning um samninginn hefði verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Í svari borgarinnar kom fram að ekki væri til „skriflegur heildarsamningur um kaup á rafmagni“ milli hennar og dótturfyrirtækja hennar. Þannig hafi greiðslur fyrir rafmagn „til orkufyrirtækja í sinni eigu verið í samræmi við gildandi verðskrá á hverjum tíma“.
Hins vegar kemur fram að einhver afsláttarkjör hafi verið til staðar fram til ársins 2018 en þá hafi stjórnkerfisbreytingar innan borgarinnar valdið því að allir samningar um slíkt hafi fallið niður. Í úrskurði sínum kemst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að óvirkja samninginn milli Reykjavíkurborgar og ON þar sem engum samningi sé til að dreifa. Á síðasta ári námu raforkukaup borgarinnar gagnvart ON ríflega 300 milljónum króna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.