Sigþrúður sækist eftir 3. sæti

Sigþrúður Ármann.
Sigþrúður Ármann. Ljósmynd/Aðsend

Sigþrúður Ármann býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Sigþrúður er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands, með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og hefur auk þess farið í stjórnendanám hjá IESE Business School í Barcelona. Sigþrúður er einn af eigendum og stjórnarformaður VON harðfiskverkunar í Hafnarfirði, situr í stjórn Verðbréfamiðstöðvar Íslands og er einn stofnenda og framkvæmdastjóri Exedra.

Þá segir í tilkynningu að Sigþrúður hafi tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins í yfir 20 ár.

„Grunngildi Sjálfstæðisflokksins eru mér hugleikin, einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi með hagsmuni allra fyrir augum. Öflugt atvinnulíf er forsenda og grundvöllur velferðar á Íslandi. Við þurfum að skapa hvetjandi umhverfi fyrir fólk og fyrirtæki og auka ráðstöfunartekjur fólks. Það gerist með auknu frelsi, lægri sköttum, auknum einkarekstri og minni umsvifum í rekstri hins opinbera. Við þurfum að bjóða upp á gott mennta- og heilbrigðiskerfi. Nýsköpun er mikilvæg sem og góðar samgöngur. Menning og listir skipta máli,“ segir Sigþrúður í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert