Þessar reglur tóku gildi á miðnætti

Tilslakanir tóku gildi á miðnætti.
Tilslakanir tóku gildi á miðnætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilslakanir á sóttvarnareglum tóku gildi innanlands á miðnætti. Eru þetta slökustu reglur sem gilt hafa innanlands frá því í fyrrasumar. Reglugerðin gildir í rúmar þrjár vikur eða út 16. júní.

Er hún í samræmi við annars mjög svo almennt orðaða afléttingaráætlun stjórnvalda, en 55,4% landsmanna, 16 ára og eldri, hafa nú fengið að minnsta kosti eina sprautu af bóluefni gegn Covid-19. Þar af eru 27,2% fullbólusett.

Helstu breytingar, sem nú hafa tekið gildi, eru:

  • Almennar samkomutakmarkanir miðast við 150 manns í stað 50.
  • Grímuskylda verður nú undantekning frekar en regla og verður ekki í gildi í verslunum og á vinnustöðum.
  • Þó verður áfram skylt að bera grímu á sitjandi viðburðum, eins og leiksýningum, bíósýningum og íþróttaviðburðum.
  • Hámarksfjöldi áhorfenda á sitjandi viðburðum fer úr 150 í 300 manns.
  • Afgreiðslutími veitingastaða lengist um klukkustund. Heimilt er að taka á móti gestum og selja áfengi og mat til klukkan 23 og allir gestir skulu farnir fyrir miðnætti.
  • Sundlaugar og aðrir baðstaðir, tjaldstæði, skíðasvæði og söfn mega taka á móti leyfilegum hámarksfjölda gesta miðað við starfsleyfi. Áður hafði verið miðað við 75%.
  • Líkamsræktarstöðvar mega sömuleiðis taka á móti hámarksfjölda gesta í stað 75%, en þó þannig að ekki séu fleiri en 150 manns í sama rými.
  • Tveggja metra reglan verður enn almenna reglan. Í skólastarfi, á veitingastöðum, íþróttahúsum og sundlaugum má þó miða við einn metra.
  • Enn verða takmarkanir á fjölda gesta á hvern fermetra í verslunum. Ekki verður þó lengur 200 manna hámarksfjöldi. Þetta þýðir að stærri verslanir geta tekið við fleiri gestum. 
Afléttingaráætlun stjórnvalda.
Afléttingaráætlun stjórnvalda. Kort/Stjórnarráðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert