„Nei, ég tel að þetta eigi ekki að hafa nein áhrif. Við höldum ótrauð áfram,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, spurð hvort álit Umhverfisstofnunar um að nauðsynlegt sé að fram fari mat á umhverfisáhrifum byggingar knatthúss íþróttfélagsins Hauka á Ásvöllum hafi áhrif á áformin.
Rósa segir að skipulag svæðisins og framkvæmdir hafi verið undirbúnar í góðan tíma og mikið samráð haft við Skipulagsstofnun. Telur hún að verkefnið hafi verið undirbúið eins vel og unnt er, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Skipulagsstofnun er með skipulag svæðisins til umfjöllunar og spurningu um hvort krafist verður umhverfismats. Fram kemur í svari Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar að bygging knatthússins muni hafa talsvert neikvæð sjónræn áhrif innan friðlandsins að Ástjörn og hætta sé á að framkvæmdin hafi varanleg áhrif á vatnafar Ástjarnar og lífríki hennar en að mögulega megi koma í veg fyrir þau áhrif með mótvægisaðgerðum.