600 keppnisdúfur flugu frá Skaftafelli í Garðabæ

Bréfdúfur á leið upp í Skaftafell aðfaranótt föstudags
Bréfdúfur á leið upp í Skaftafell aðfaranótt föstudags Ljósmynd/Kristján Jóhann Bjarnason

Tæplega 600 bréfdúfur kepptust um að koma fyrstar í mark síðastliðinn föstudag þegar keppni í Íslandsmóti Bréfdúfnafélagi Íslands (BDFI) fór fram.

Klukkan sex á föstudagsmorgun var bílstjóri á vegum BDFI mættur upp í Skaftafell til að sleppa rúmlega 600 dúfum sem áttu að fljúga alla leið í Garðabæ. Tók það fyrstu dúfurnar ekki nema rúmlega tvo og hálfan klukkutíma að koma í mark en bestu fuglarnir fljúga á 80 km/klst meðalhraða.

Þetta var önnur keppnin í Íslandsmótinu en alls verða 14 keppnir haldnar í sumar ef allt gengur að óskum. Verður sú síðasta haldin í ágúst og kemur þá í ljós hver stendur uppi sem Íslandsmeistari 2021 en sigurvegari mótsins er sá sem safnar inn flestum stigum í gegnum allt mótið. 

Guðmundur Þráinn Kristjánsson, sleppistjóri BDFI, segir í samtali við mbl.is áhuga fyrir dúfnarækt fara hægt og rólega vaxandi hérlendis. Ekki margir eru meðvitaðir um þessa keppnisgrein á Íslandi en samkvæmt Guðmundi hafa mót verið haldin með skipulögðum hætti í rúmlega 20 ár eða frá árinu 1999.

Í dag eru 15 þátttakendur sem taka þátt í keppnum reglulega og enn fleiri sem stunda ræktun. Mega þá þátttakendur vera með alls 40 dúfur á sínum snærum í hverri keppni.

Ljósmynd/Aðsend

Sleppt í allt að 400 kílómetra fjarlægð

Fuglunum er sleppt á mismunandi stöðum um landið en Guðmundur segir vegalengdirnar fara hátt upp í 400 kílómetra en þrátt fyrir langar leiðir rata fuglarnir næstum undantekningarlaust til baka. „Ef þeir koma ekki samdægurs þá skila þeir sér oftast daginn eftir. Það er ekki nema það komi fálki eða eitthvað svoleiðis sem að það gerist ekki.“

Er þá staðsetningarbúnaði komið fyrir á litlum hring á hverjum fugli svo hægt sé að fylgjast með hvaða leið þeir fari auk þess sem búnaðurinn skráir tíma fuglanna og hvenær þær koma í mark.

Bendir hann þá á heimasíðuna dufur.net þar sem yfirleitt er hægt að fylgjast með gangi mála en heimasíðan liggur nú tímabundið niðri.

Mikilli vinnu er varið í að þjálfa góðar bréfdúfur
Mikilli vinnu er varið í að þjálfa góðar bréfdúfur Ljósmynd/Aðsend

Stífar æfingar en lítill peningur

Samkvæmt Guðmundi eru ekki miklir peningar í íþróttinni hérlendis en keppendur á mótum eru aðallega í þessu upp á gamanið. „Það er enginn peningur út úr mótinu, bara verðlaunapeningar. Þetta er bara upp á heiðurinn. Það er hinsvegar mjög mikill peningur erlendis.“

Þrátt fyrir litla innkomu eru allra hörðustu keppendurnir þó að fjárfesta í góðum keppnisdúfum en kaup á slíkum fugli geta numið allt að 100 þúsund krónum. Er þá einnig miklum tíma varið í að rækta og þjálfa dúfurnar en samkvæmt Guðmundi er þetta afar tímafrekt áhugamál. Eru þá dúfurnar þjálfaðar í sirka 45 mínútur á dag auk þess sem keppendur fara með þær í lengri ferðir og láta þær fljúga heim. Keppnirnar standa svo yfir næstum hverja helgi yfir sumarið.

„Það fer mikill tími í þetta, sérstaklega ef þú ert að keppa á fullu. Þá fer bara allt sumarið undir ef þú ætlar að keppa í öllum keppnum og reyna að vinna mótið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert