Allar þrjár byggingar Fossvogsskóla verða gerðar upp með tilliti til nútíma krafna í skólastarfi og byggingartækni. Skólastarfsemi verður í Korpuskóla næsta vetur.
Þetta kemur fram í tilkynningu til foreldra barna í Fossvogsskóla í kvöld. Þar segir að nú sé ljóst að ekki hafi tekist að koma í veg fyrir rakaskemmdir og raka í öllum byggingum skólans. Auk þess að laga skemmdir og koma í veg fyrir myglu leggi Efla til að farið verði í gagngerar endurbætur á öllum þremur byggingum skólans svo koma megi í veg fyrir framtíðarvandamál.
Reykjavíkurborg hefur nú tekið þá ákvörðun að flýta þeim framkvæmdum við skólann sem voru fyrirhugaðar á næstu árum og uppfæra hann samkvæmt nútíma kröfum um byggingar og kennslufræði til þess að lágmarka eins og kostur er frekara rask á skólastarfi og tryggja hagkvæmni. Það þýðir að engin skólastarfsemi mun fara fram þar næsta skólaári. Á fundi skólaráðs Fossvogsskóla í kvöld var ekki tekin endanleg ákvörðun um tilhögun skólastarfs á næsta ári en unnið verður að því nota Korpuskóla eftir fremsta megni.
„Það eru auðvitað veruleg vonbrigði að ekki hafi tekist alveg að koma í veg fyrir rakavandamál í skólanum með þeim aðgerðum sem farið var í. Hins vegar fagna ég því að niðurstaða og ákvörðun um að fara í gagngera endurgerð skólans liggi nú fyrir,“ er haft eftir Helga Grímssyni sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs í tilkynningu.
Nú þegar hafa talsverðir fjármunir verið lagðir í endurbætur á Fossvogsskóla. Þar sem til stendur að skipta um glugga í byggingum og loftræstikerfi mun eitthvað af fyrri framkvæmdum verða teknar upp. Einnig stendur til að lagfæra þök frekar og rakavarnir auk þess sem veðurhjúpur bygginganna verður endurnýjaður með nútíma efnum og einangrun að utan. Þá verða skriðkjallarar undir byggingunum lagfærðir og þéttir og brunnar sem nú eru inni í byggingunum færðir út úr húsum.
„Við erum að fara að uppfæra allt húsnæðið að utan og innan. Það mun verða mjög krefjandi verkefni,“ er haft eftir Ámundi Brynjólfssyni sem stýrir skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá umhverfis- og skipulagsviði í tilkynningu.