Flestir hafna einkarekstri í heilbrigðiskerfinu

Rúnar Vilhjálmsson á fundinum í morgun.
Rúnar Vilhjálmsson á fundinum í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er andvígur auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem unnin var fyrir BSRB og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Alls vilja um 81,3 prósent landsmanna að rekstur sjúkrahúsa sé fyrst og fremst á hendi hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga. Örlítill minnihluti, um 1,6 prósent, vill að sjúkrahús eigi fyrst og fremst að vera rekin af einkaaðilum.

Rúmlega tveir þriðju hlutar þjóðarinnar, um 67,6 prósent, vilja að starfsemi heilsugæslustöðva sé fyrst og fremst rekin af hinu opinbera. Aðeins 3,3 prósent vilja að heilsugæslustöðvarnar verði aðallega eða eingöngu starfræktar af einkaaðilum.

Þá vill meirihluti landsmanna, um 58,4 prósent, að hjúkrunarheimili verði rekin af hinu opinbera, en um 3,8 prósent vilja rekstur þeirra aðallega eða eingöngu í höndum einkaaðila.

„Þessar niðurstöður sýna með afgerandi hætti að þjóðin hafnar aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu okkar,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Kom þetta fram í fréttatilkynningu frá SBSR. 

Fylgismenn Sjálfstæðisflokksins skáru sig úr varðandi afstöðu til einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu og voru þeir töluvert jákvæðari en aðrir. Athyglisvert var að hver einasti fylgismaður Samfylkingarinnar sagðist aðeins vilja opinberan rekstur.

Lítið fylgi er við því að fyrst og fremst einkaaðilar standi að rekstri heilbrigðisþjónustu. Hins vegar má sjá einhverja jákvæðni í garð blandaðs rekstrarumhverfis á vissum sviðum. Þá helst tannlækningum fyrir fullorðna og sjúkraþjálfunarstofum.

Heilsugæslustöðvar

Fleiri konur en karlar styðja við opinberan rekstur heilsugæslustöðva. Rúnar sagðist, í kynningu sem hann hélt á skoðanakönnuninni, ímynda sér að það skýrist mögulega af því að konur séu almennt í meiri tengslum við þær í kringum meðgöngu og umönnun ungra barna. Þær séu því ánægðar með þá þjónustu sem þær hafa fengið en karlarnir séu opnari fyrir breytingum á rekstrarfyrirkomulaginu.

Þróun á viðhorfum er á þá leið að dregið hefur úr stuðningi við opinberan rekstur heilsugæslustöðva. Er þessi þróun bundin við Reykjavíkursvæðið og má rekja til mikilla og umdeildra skipulagsbreytinga á starfsemi heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og þjónustusamninga við einkareknar heilsugæslustöðvar. Þrátt fyrir þetta er stuðningur við opinberan rekstur enn yfirgnæfandi. 

Konur styðja frekar við opinberan rekstur heilsugæslustöðva
Konur styðja frekar við opinberan rekstur heilsugæslustöðva mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska heilbrigðiskerfið færist frá kjörmynd hins félagslega kerfis

Íslenska heilbrigðiskerfinu svipar til þess sem kallast félagslegt kerfi, en þannig er það einnig á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Borið saman við annars konar kerfi kemur hið félagslega best út hvað varðar lýðheilsu, aðgengi að þjónustu og lágan hlutfallslegan kostnað. Kom þetta fram í kynningu Rúnars.

Kjörmynd félagslegra kerfa hefur verið lýst sem svo að þau veiti almennan rétt til heilbrigðisþjónustu og jafnt aðgengi að þjónustu. Þjónustan sé fjármögnuð, skipulögð og framkvæmd af hinu opinbera.

Íslenska heilbrigðiskerfið hefur færst frá kjörmynd hins félagslega heilbrigðiskerfis á undanförnum árum með einkavæðingu innan kerfisins. Einkavæðing getur verið í formi eignasölu, einkaframkvæmd og einkafjármögnunar.

Áskoranir tengdar einkafjármögnun

Áskoranir tengdar einkafjármögnun eru, samkvæmt Rúnari, helst þær að sjúklingagjöld geta valdið því að fólk leiti síður og sjaldnar til þjónustuaðila. Einkafjármögnun geti einnig valdið ójöfnuði í aðgengi að þjónustu.

Hefur verið bent á að sjúklingagjöldum sé jafnan ætlað að auka kostnaðarvitund sjúklinga og draga úr óþarfri þjónustunotkun en ekki nauðsynlegri hjálparleit. Rúnar hins vegar spyr til hvers ætti að auka kostnaðarvitund sjúklinga og bendir einnig á það að langveikir og fjölkvillaveikir fresti því oftar en aðrir að leita til læknis.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við HÍ vann þessa skoðanakönnun um viðhorf …
Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við HÍ vann þessa skoðanakönnun um viðhorf landsmanna fyrir BSRB

Áskoranir tengdar einkaframkvæmd

Hafa komið fram rök þess efnis að einkaframkvæmd verði til þess að þjónustan batni.

Rúnar bendir þá á vanda sem geta tengst einkaframkvæmd. Þjónustusamningar við einkaaðila séu oft flóknir og til þess fallnir að valda ósveigjanleika þegar þjónustuþarfir breytast.

Hann segir að einkaframkvæmd beinist oft frekar að meðhöndlun sjúkdóma en fyrirbyggingu þeirra. Telur Rúnar að einkaframkvæmd á vegum fyrirtækja dragi almennt ekki úr heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustuna heldur geti þvert á móti aukið hann vegna hás stjórnunarkostnaðar, arðgreiðslna og aukins kostnaðar eftirlitsaðila.

Útgjöld Íslendinga til heilbrigðismála eru hlutfallslega lægri en á meðal nágrannalandanna. Námsmenn, atvinnulausir, lágtekjufólk, langveikir og öryrkjar eru með hlutfallslega hærri útgjöld til heilbrigðisþjónustu. Mikill stuðningur er meðal þeirra til opinbers reksturs heilbrigðiskerfisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert