„Hefði átt að gerast fyrir mörgum mánuðum“

Alls 7.700 skammtar af Pfizer voru gefnir í dag, miðvikudag, …
Alls 7.700 skammtar af Pfizer voru gefnir í dag, miðvikudag, en áætla má að þar af hafi 2.000 skammtar verið ætlaðir aðstandendum langveikra barna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Foreldrar og aðrir aðstandendur langveikra barna voru loks bólusett í dag eftir langa bið en mörg þeirra hafa sætt verndunarsóttkví síðan veiran braust fyrst út.

Löngu tímabært

„Þetta er eitthvað sem hefði átt að gerast fyrir mörgum mánuðum, að því sem okkur finnst. Eftir því sem fleiri hafa verið bólusettir í samfélaginu hefur manni þótt frekar sérstakt að þessi hópur hafi setið svona eftir,“ segir Árný Ingvarsdóttir, framkvæmdarstjóri Umhyggju – félags langveikra barna.

„En núna gleðjumst við yfir því að komið sé að bólusetningu og vonumst til þess að sem flestir nái að fá sprautu í dag og svo aftur að þremur vikum liðnum,“ segir hún.

Bólusetning í Laugardalshöll.
Bólusetning í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bólusetning af þessu tagi kallast hringbólusetning. Það þýðir að þegar ekki er hægt að bólusetja barnið, sökum aldurs eða sjúkdóms, þá eru aðstandendur þess bólusettir.

Sú vinna að finna það fólk er flókin og því hefur bólusetningin tafist mjög þrátt fyrir að hópurinn sé til að mynda ofar á forgangslista en starfsfólk leik- grunn- og framhaldsskóla en þeirra bólusetning hófst í byrjun maí. „Þetta snýst allt í einu ekki um að bólusetja einhvern einn heldur þarf að finna þá sem að tengjast viðkomandi,“ segir Árný.

Spurð út í samskiptin við sóttvarnayfirvöld segir Árný að bæði þau í Umhyggju auk annarra félaga hafi sent út yfirlýsingu í febrúar og séu búin að ýta á eftir þessu síðan þá. Það sé því kærkomið að bólusetningin sé loks í höfn.

Alls voru 7.700 skammtar af Pfizer gefnir í dag, miðvikudag, en áætla má að þar af séu 2.000 skammtar ætlaðir aðstandendum langveikra barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert