20 gráða múrinn varð ekki rofinn í dag, eins og talið var að gæti gerst. Mestur mældist hitinn á landinu 19,9 gráður og það í Skagafirði. Nánar tiltekið á bænum Miðsitju í Blönduhlíð.
Mikil veðursæld ríkti á Norðurlandi í dag og mældist hiti 19,6 gráður á Torfum í Eyjafirði. Þá náði hitinn 19,4 gráðum á Brúsastöðum í Vatnsdal.
Hitinn er samt sem áður ekki sá mesti sem mælst hefur það sem af er ári. 18. mars fór hitinn nefnilega yfir 20 gráður á Dalatanga og í Neskaupstað.