Langir biðlistar geti skilið milli lífs og dauða

„Kerfið er ekki að sinna skyldum sínum gagnvart ungu fólki, …
„Kerfið er ekki að sinna skyldum sínum gagnvart ungu fólki, með ótrúlega alvarlegum afleiðingum“

„Ég fékk algjört áfall yfir þeim meðferðarúrræðum sem eru í boði hér á landi, ég trúði ekki að ísland væri þarna á þessum stað,” sagði Elín Vigdís Guðmundsdóttir, ein af þremur í stjórn SÁTT, samtök um átröskun og tengdar raskanir. 

Samtökin halda sinn fyrsta viðburð á föstudaginn, þann 28. maí, milli 9 og 12, en það mun vera fundur á rafrænu formi. Meðal fyrirlesara sem koma fram á fundinum eru Heiða Rut, frá átröskunarteymi LandspítalansFormaður samtaka átraskana í Svíþjóð og Styrkár Hallsson, sálfræðingurÞá mun einnig fólk deila sínum sögum af átröskunum.

Stofnendur SÁTT eru þær Elín Vigdís Guðmundsdóttir, Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir og Margrét Helgadóttir. Markmið samtakanna er m.a. að auka skilning og þekkingu stjórnvalda á átröskunum og mikilvægi þess að aukið fjármagn sé veitt í þessa þjónustu svo hægt verði að bæta það úrræði sem býðst hér á landi. Þá eru einnig markmið samtakanna að veita aðstandendum fræðslu og stuðning og að stuðla að auknum skilningi og þekkingu innan heilbrigðisstéttarinnar svo hægt sé að greina átraskanir á fyrri stigum. 

Meðferðarúrræði verið ábótavant í langan tíma

Samkvæmt Elínu hefur meðferðarúrræði fyrir fólk sem glímir við átraskanir lengi verið ábótavant, það hafa verið fá og einsleit úrræði og langir biðlistar eftir þeirri þjónustu sem í boði er. „Hugsunin okkar er að það sé ekki af hinu illa að ekki sé verið að sinna þessu betur, heldur sé til staðar skilningsleysi og skortur á opinni umræðu sem að við viljum breyta,“ segir Elín.

„Við viljum koma fram og fá stóran hóp með okkur sem er tilbúinn til þess að segja sína sögu, opna á umræðuna og draga úr skömminni.“ Þá bætir hún við að nógu erfitt sé að takast á við átröskun að ekki eigi að þurfa að hvíla skömm í ofanálag yfir einhverju sem er eðlilegt að glíma við í því samfélagi sem við þekkjum í dag.

Biðtími við þjónustu frá átröskunarteyminu eru í dag 18 mánuðir.
Biðtími við þjónustu frá átröskunarteyminu eru í dag 18 mánuðir. Sverrir Vilhelmsson

 „Kerfið er ekki að sinna skyldum sínum gagnvart ungu fólki, með ótrúlega alvarlegum afleiðingum,“ segir Elín og bendir á að biðtími í dag við þjónustu frá átröskunarteyminu sé 18 mánuðir.

Á meðan biðlistar eftir þeirri þjónustu sem býðst fyllast, er eina þjónustan sem fólk getur fengið kostnaðarsöm sálfræðiþjónusta. Samkvæmt Elínu er sú þjónusta í flestum tilvikum hvorki fullnægjandi né á færi allra. Átraskanir ágerast oft hratt og eru geðsjúkdómar sem hafa hvað hæstu dánartíðnina, því mætti segja að langir biðlistar geti skilið milli lífs og dauða. 

„Við erum alls ekki að biðja um að það sé einhver tilfærsla úr öðrum geðröskunardeildum yfir í átröskunarteymið, heldur viljum við sjá mikla aukningu í geðheilbrigðismálum almennt. Við viljum einnig vinna að kerfisbreytingu, forvörnum og fræðslu,“ segir Elín. Þá bætir hún við að samtökin vilji eiga í uppbyggilegu samtali við stjórnvöld, heilbrigðisyfirvöld, skólasamfélög og íþróttafélög.

„Það þarf að taka málaflokkinn í gegn í heild sinni, skoða dæmi annarsstaðar frá og búa til bestu útgáfuna af geðheilbrigðiskerfi með sterkum forvörnum,“ segir Elín. „Það þarf að leggja fé í forvarnir og fræðslu fyrir ungt fólk. Margir eru einmana, kvíðinn er að aukast og samfélagsmiðlar geta oft á tíðum verið virkilega skaðlegir, Við þurfum að vera mótvægi við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert