Play og ÍFF kalla flugfreyjur og -þjóna rangnefni

Í kjarasamningi Íslenska flugstéttafélagsins (ÍFF) og Play Air er notast við rangt orð yfir flugfreyjur og -þjóna. Orðið flugliðar er notað af forsvarsmönnum bæði flug- og stéttafélagsins en í kjarasamningnum kemur meðal annars fram að „flugliðar annast alla framreiðslu og sölu varnings í flugvélum Play“. 

Þetta kemur fram í frétt á vef Túrista.

Orðið flugliði hefur á síðustu árum rutt sér til rúms í íslensku máli sem kynhlutlaust orð yfir flugfreyjur og -þjóna.

Flugliði þarf réttindi til að gegna starfi í stjórnklefa

Hugtakið flugliði merkir aftur á móti „maður með réttindi til að gegna starfi í stjórnklefa flugvéla og hefur flugliðaskírteni“, samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók. Kjarasamningur Play og ÍFF vísar samt sem áður greinilega til flugfreyja og -þjóna en ekki flugmanna sem þiggja laun samkvæmt öðrum samningi.

Í kjarasamningi Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair kemur orðið „flugliðar“ hvergi fyrir. 

Segjast ekki hafa gert ráð fyrir að vera „skotspónn ASÍ“

Í skriflegu svari við spurningum fréttamanns mbl.is sagði Friðrik Már Ottesen, varaformaður ÍFF, að bæði flugliðar og flugmenn störfuðu hjá Play Air en svaraði því ekki hvort starfandi flugfreyjur eða flugþjónar væru viðriðnir ÍFF.

Spurður út í aðkomu stjórnarmanna að málinu sagði Friðrik stjórnina ekki hafa gert ráð fyrir því að vera gerður að „skotspón ASÍ“ við gerð kjarasamninganna. Hann sæi hins vegar fram á mikla uppbyggingu félagsins samhliða vexti Play air og sagði stöðu sjóða félagsins góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert