Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra staðfestir á Facebook að embættið hafi til rannsóknar kæru starfsmanns Samherja vegna þjófnaðar.
„Vegna fjölda fyrirspurna vill lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra koma eftirfarandi á framfæri. Lögreglan staðfestir að til rannsóknar er kæra starfsmanns Samherja vegna þjófnaðar. Rannsókn málsins er á frumstigi og getur lögreglan því ekki gefið frekari upplýsingar,“ segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Líkt og greint var frá á mbl.is í gær var farsíma Páls Steingrímssonar, skipstjóra og eins þátttakenda í „skæruliðadeild Samherja“, stolið af honum á meðan hann lá á milli heims og helju á sjúkrahúsi. Þetta staðfestir Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, í samtali við 200 mílur í gær.
„Páll var alvarlega veikur, svo veikur að hann var í öndunarvél. Á meðan hann er í því ástandi, þá er símanum hans stolið,“ segir Garðar.
Ekki kemur fram í fréttinni hvar símanum var stolið. Hvort það var á sjúkrahúsi Norðurlands, Landspítalanum eða einhvers staðar annarsstaðar.