Skoðuðu hvort Helgi væri í Namibíu

Jón Óttar Ólafsson.
Jón Óttar Ólafsson. Ljósmynd/Úr myndskeiði Samherja

Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi Samherja, sagði í upphafi febrúarmánaðar á þessu ári að „skoðun“ væri hafin á því hvort fréttamaðurinn Helgi Seljan væri mögulega staddur í Namibíu. „Það er verið að tekka a þvi. Su skoðun byrjaði i dag,“ sagði Jón Óttar í spjalli við skipstjórann Pál Steingrímsson, sem hafði spurt Jón Óttar að því hvort fréttamaðurinn væri staddur í Namibíu. Þetta kemur fram í Kjarnanum í dag en bæði Kjarninn og Stundin hafa undanfarna daga birt upplýsingar úr samskiptum sjálfskipaðra „skæruliða“ útgerðarfélagsins. 

Í fyrstu grein Stundarinnar kom fram að þessi óformlegi hópur, Þor­björn Þórð­ar­son al­manna­teng­ill, Arna Bryn­dís McClure Bald­vins­dótt­ir lög­mað­ur og Páll Stein­gríms­son skip­stjóri, sem virðist potturinn og pannan í málsvörn Samherja kallar sig svo skæruliðadeildina.

Í samskiptum þeirra á milli er ítrekað vísað til þessa nafns. „Skæruliðadeildin er alltaf á vaktinni 😉“ segir í einum þessara skilaboða. Aðrir samfélagsmiðlanotendur sem hafa talað máli Samherja eru svo sagðir tilheyra „skuggadeildinni“ og að þeir fái reglulega upplýsingar frá Páli til að nýta. Upplýsingar sem virðast gjarnan eiga uppruna sinn hjá Örnu, Þorbirni eða öðrum starfsmönnum Samherja. 

Helgi Seljan fór til Kýpur undir lok janúarmánaðar og heimsótti borgina Limassol, en þar hafa þónokkur félög Samherjasamstæðunnar verið skráð með skrifstofur. Ferðin var farin til þess að varpa ljósi á umfang starfsemi Samherja á Kýpur og komast í samband við þá sem að nafninu til hafa verið í forsvari fyrirtækja samstæðunnar þar sem stjórnarmenn að því er segir í frétt Kjarnans í morgun.

„Djöfull er þetta gott á þá“

„Nokkrum dögum eftir að Samherji fékk veður af Kýpurferð Helga birti fyrirtækið yfirlýsingu á vef sínum undir fyrirsögninni „Ríkisútvarpið reynir fyrirsát á Kýpur í ferða- og útgöngubanni“ og gagnrýndi þar að Helgi hefði „freistað þess að endurvinna fréttir um mál sem tengjast útgerð í Namibíu og sett sig í samband við núverandi og fyrrverandi stjórnarmenn félaga sem tengjast Samherja.“ Þar var einnig birt myndband af Helga við störf ásamt kvikmyndatökumanni.

Jón Óttar sagði í samtali við Pál þann 29. febrúar að myndbandið sem Samherji hefði birt á vef sínum kæmi úr öryggismyndavél hjá „lögmannsstofunni okkar“ og Páll lýsti yfir ánægju með birtingu þess. „Haha já ok en djöfull er þetta gott á þá,“ sagði Páll,“ segir í frétt Kjarnans.

Í upphafi þessa árs ræddi Páll við lögmanninn Örnu McClure um að hann ætlaði sér að komast að því hvort Helgi hefði verið viðstaddur er uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson fór til Berlínar í Þýskalandi árið 2019 og gaf namibískum yfirvöldum skýrslu um Namibíumálið í sendiráði landsins þar í borg.

Leitaði til ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins

Páll Steingrímsson hefur birt greinar þar sem hann ver málstað …
Páll Steingrímsson hefur birt greinar þar sem hann ver málstað Samherja. Samsett mynd

Páll sagðist þann 3. janúar ætla að leita til persónulega til Martins Eyjólfssonar, fyrrverandi sendiherra í Þýskalandi og núverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, og grennslast fyrir um þetta – hvort Helgi Seljan hefði farið með Jóhannesi til Berlínar. Páll sagði við Örnu að hann ætlaði að „heyra í Martin“ því Martin hefði eitt sinn sagt að hann myndi hiklaust ráða sig í borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.

„Var að tala við Martin Eyjólfs,hann er núna ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu 😃“ sagði Páll síðan við Örnu þann 4. janúar og lét fylgja að það hefði verið „mjög gott spjall“ sem Páll sagðist ætla að „segja mönnum af“ því hann teldi það endurspegla „svolítið hvað fólk er að hugsa“, en ekki var þó á Páli að skilja að hann hefði fengið nokkrar upplýsingar frá ráðuneytisstjóranum samkvæmt frétt Kjarnans. 

Kjarninn bar þessi samskipti undir Martin og staðfesti hann að Páll hafi leitað til hans í byrjun árs til að kanna möguleika á aðstoð utanríkisþjónustunnar. „Eins og viðbrögð Páls bera með sér var ekki unnt að verða við beiðninni enda fellur hún utan verksviðs utanríkisþjónustunnar og kom því ekki inn á borð hennar,“ segir Martin í skriflegu svari til Kjarnans.

Umfjöllun Kjarnans er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert