Smitin tengjast og stór hópur skimaður

Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, hefur staðið vaktina varðandi …
Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, hefur staðið vaktina varðandi kórónuveirufaraldurinn í á annað ár. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Að minnsta kosti fjögur af fimm smitum í gær tengjast og er verið að boða stóran hóp í skimun vegna þeirra. Fá smit hafa greinst við landamærin en að sögn Víðis Reynissonar, yf­ir­lög­regluþjóns hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, er hlutfall bólusettra nú komið í 72% þar. Hann á ekki von á að lögregla rannsaki söguburð um dauðsfall í kjölfar bólusetningar en segir hræðilegt að einhverjir séu að dreifa sögum sem þessari. 

Líkt og greint var frá á mbl.is áðan greindust fimm smit innanlands í gær og af þeim voru þrír í sóttkví. Meðal þeirra sem eru smitaðir er starfsmaður leikskólans Árborgar í Árbænum.

Víðir segir að smitrakning gangi vel en fólkið sem greindist í skimun í gær var ýmist nýkomið í sóttkví eða ekki komið í sóttkví þegar það greindist. Raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar munu liggja fyrir í kvöld eða í fyrramálið og þá sést hvort það eru tengingar við fyrri smit. 

Líkt og kom fram í máli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í viðtali við mbl.is eru öll smit raðgreind hér á landi inn­an 24-48 klukku­stunda eft­ir að þau grein­ast og er Ísland eina landið í heim­in­um sem raðgrein­ir öll Covid-19-smit. Ekk­ert annað land skil­ar niður­stöðum raðgrein­ing­ar eins fljótt og Íslensk erfðagrein­ing ger­ir hér á landi.

Að sögn Víðis er verið að senda marga í skimun vegna smitanna í gær og segir hann að ansi margir séu komnir í sóttkví, bæði börn og fullorðnir. „Það gengur vel að ná utan um þetta og gengið tiltölulega hratt fyrir sig,“ segir Víðir og bætir við að fimmta smitið hafi ekki augljósa tengingu við hin en unnið sé að rannsókn á því hvort svo sé.

Spurður hvort það valdi vonbrigðum að svo mörg smit hafi greinst á einum degi segir Víðir að þetta hafi ekki komið á óvart og búast megi við að þetta verði svona, að upp komi klasasmit, þar til hærra hlutfall þjóðarinnar er bólusett. 

„Við eigum eftir að fá upp litla klasa, sem vonandi verða ekki stórir, og vonandi minnka þeir og minnka eftir því sem fleiri eru bólusettir. Því þá eru minni líkur á hópsmiti. Þetta er þessi tvísýni tími þangað til við erum búin að ná meiri útbreiðslu í bólusetningum,“ segir Víðir í samtali við mbl.is. Hann telur að það geti orðið eftir kannski þrjár vikur eða um miðjan júní.

72% þeirra sem koma til landsins eru bólusett

Nýgengi smita á landamærunum miðað við 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar er ekki nema 2,7 og mjög fá smit hafa greinst þar að undanförnu. Víðir segir að það hækki alltaf og hækki hlutfall þeirra sem eru bólusettir við komuna til landsins. 

„Það er komið upp í 72%,“ segir Víðir. Nánast allir sem koma frá Bandaríkjunum eru bólusettir og segir Víðir að þetta verði allt þægilegra og einfaldara þegar svo margir eru bólusettir við komuna til landsins.

„Beinlínis hræðilegt“

Spurður hvort lögreglan muni rannsaka þessa upplýsingaóreiðu sem kom upp á samfélagsmiðlum varðandi dauðsfall af völdum blóðtappa líkt og mbl.is greindi frá í gær segist Víðir ekki eiga von á því að svo verði.

„Þetta er fyrst og fremst sorg og harmur að einhverjum skuli detta í hug að nýta sér svona og að syrgjandi ættingjar þurfi að vera að leiðrétta þetta er alveg með ólíkindum. Það er hræðilegt að horfa upp á þetta og fólk, sem ætlar sér að dreifa einhverjum sögum, verður að gæta að sér. Þú getur rétt ímyndað þér að vera í þessari sorg sem þetta fólk er í og þurfa svo þar að auki að standa í að leiðrétta svona hluti. Þetta er beinlínis hræðilegt,“ segir Víðir. 

Flökku­sögu um að ung kona hafi lát­ist nokkr­um klukku­stund­um eft­ir bólu­setn­ingu við Covid-19 af völd­um blóðtappa í heila hef­ur verið dreift á sam­fé­lags­miðlum und­an­farna daga. Sam­býl­ismaður henn­ar neydd­ist til þess að setja inn færslu á face­booksíðuna Covid19 – Opin umræða þar sem hann fjall­ar um þessa fals­frétt sem hafi ratað inn á þenn­an umræðuvett­vang.

Að hans sögn lést kona hans eft­ir 19 vikna meðgöngu vegna blóðtappa í lung­um og hún var óbólu­sett. Aft­ur á móti sagði flökku­sag­an – og henni fylgdi sam­sett mynd – að hún hefði verið kom­in 20 vik­ur á leið og lát­ist af völd­um blóðtappa í heila nokkr­um klukku­stund­um eft­ir bólu­setn­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert