Mikil veðursæld ríkir nú í norðri en hitinn mældist 19,4 gráður á Torfum í Eyjafirði klukkan 14 í dag. Daníel Þorláksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, útilokar ekki að hitinn skríði upp í 20 gráður þótt spáin geri ekki ráð fyrir því eins og stendur.
Daníel segir íbúa höfuðborgarsvæðisins ekki geta vænst þess að fá hitann að norðan en veður verður svipað og síðustu daga í borginni. Norðanmenn geta hins vegar notið hitans bæði í dag og á morgun, samkvæmt spánni. Ef hitinn fer ekki yfir 20 gráðurnar í dag gæti múrinn rofnað á morgun.
Þó að þetta sé mikill hiti er þetta ekki sá sem mesti mælst hefur það sem af er ári. 18. mars fór hitinn yfir 20 gráður á Dalatanga og í Neskaupstað vegna hnúkaþeys.
Færi hitinn upp í 20 gráður fyrir norðan í dag eða á morgun væri það þó í fyrsta sinn á árinu sem sólin væri drifkrafturinn.
Veður verður skaplegt fyrir norðan á laugardaginn en síðan mun kólna á sunnudeginum.