Tveir dælubílar voru kallaðir út í morgun á Norðurlandi eystra við sinubruna við Lundeyri, skammt austan við Þverholt á Akureyri. Eldurinn leitaði í tvær áttir og tókst slökkviliðinu á Norðurlandi eystra að slökkva hann áður en hann varð óviðráðanlegur.
Þetta staðfestir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, í samtali við mbl.is. „Þarna voru mikil verðmæti í kring, hús og annað,“ segir hann en ekkert er vitað um eldsupptökin enn sem komið er.
„Við tókum ákvörðun um það á fundi í morgun, slökkviliðsstjórar á starfsvæði lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, að óska eftir því við ríkislögreglustjóra að hann myndi lýsa yfir óvissustigi vegna gróðurelda,“ segir hann en hættu- eða óvissustig vegna gróðurelda ríkir því nú alls staðar á landinu nema á Austurlandi, Vestur Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjum.
„Þetta er aðallega til þess að vekja athygli almennings á þessari hættu. Við erum auðvitað á vaktinni en þetta gæti þá minnkað líkurnar á því að fólk kveiki óvart í, það passi sig með meðferð grilla og sé ekki að kveikja varðelda og slíkt,“ segir hann og minnir á að besta vörnin gegn eldinum sé að kveikja hann ekki til að byrja með.
Hann bendir einnig á að hægt er að lesa sér til um ákjósanleg viðbrögð og helstu áhættustaði á upplýsingavef um gróðurelda hér.