Vilja aukið samstarf við Grænland

Grænland og Ísland eiga ríka sameiginlega hagsmuni
Grænland og Ísland eiga ríka sameiginlega hagsmuni

Utanríkismálanefnd fundaði í dag með Grænlandsnefnd þar sem þingsályktunartillaga um aukið samstarf milli Íslands og Grænlands var afgreidd út úr nefndinni.  

Tillagan var lögð fram í framhaldi af skýrslu um mögulega samstarfsfleti milli ríkjanna. Með þessari tillögu hvetur Alþingi ríkisstjórnina til að koma á rammasamningi við Grænland um samstarf með hliðsjón af þeim áherslum og tillögum sem er að finna í skýrslunni.

Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar, telur að það ríki þverpólitísk sátt um að auka samstarf við Grænland út frá ýmsum hliðum. Möguleikarnir eru margir en í skýrslunni er að finna alls nítíu og níu tillögur á tíu málefnasviðum.

Samstarfið sem um ræðir væri mjög víðtækt. Uppi eru til að mynda tillögur um að koma á tvíhliða viðskiptasamningi sem yrðu til þess að opna grænlenska markaðinn fyrir íslenskum fyrirtækjum. Uppbygging fjarnáms grænlenskra nemenda við íslenska Háskóla, nýr fiskveiðisamningur og uppbygging smávirkjana í Grænlandi svo eitthvað sé nefnt.

Í skýrslunni kemur fram að Ísland og Grænland hafi öðlast mikið vægi í ljósi þeirrar nýju heimsmyndar sem blasir við með bráðnun Norðurheimsskautsins. Grænland og Ísland eigi ríka sameiginlega hagsmuni í að tryggja að auðlindir á Norðurslóðum verði nýttar á forsendum sjálfbærni og að alþjóðasamfélagið spyrni fótum fast við hlýnun af manna völdum.

Verði Þingsályktunartillagan samþykkt, sýnir það fram á eindreginn vilja íslenska þingsins að stofna til samstarfs við Grænland. Rammasamningurinn verður hinsvegar ekki gerður nema af ríkisstjórn Íslands og Grænlands í sameiningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert