Votlendissvæði Fitjaár friðlýst

Frá friðlýsingunni.
Frá friðlýsingunni. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis-og auðlindaráðherra skrifaði í dag undir friðlýsingu votlendissvæðis Fitjaár í Skorradal, sem friðlands. 

Undirbúningur að friðlýsingunni var unnin í samstarfi Umhverfisstofnunar, Skorradalshrepps, umhverfisráðuneytisins, Skógræktarinnar og Ríkiseigna auk landeiganda Fitja sem áttu frumkvæðið að friðlýsingunni. 

Friðlýsingin miðar að því að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá þar sem skiptast á mýrar og flóar. Fram kemur í tilkynningu að svæðið gegni fjölbreyttu hlutverki í vistkerfum og er meðal annars mikilvægt búsvæði plöntu- og fuglategunda. Starungsmýravist, sem er blautt, þýft mýrlendi vaxið mýrastör og fleiri votlendistegundum, er helsta votlendisvistgerð svæðisins og hefur mjög hátt verndargildi.

Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar sveitarfélagsins Skorradalshrepps, ásamt landeigendum, fulltrúum Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka