Liðsmaður uppstillingarnefndar Viðreisnar í Reykjavík segir að Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður flokksins, hafi komið því skýrt á framfæri að hann vildi aðeins oddvitasæti á lista flokksins og ekkert annað.
Natan Kolbeinsson, sem sat í uppstillingarnefndinni, skrifar í færslu á Facebook að flokknum hafi þá verið vandi á höndum að koma Benedikt fyrir enda séu fyrir þrjár konur í oddvitasætum á höfuðborgarsvæðinu sem hafi „náð að lyfta flokknum upp í rúm 11% og þar að auki starfað að heilindum og dugnaði“.
Þar sem oddvitar flokksins í landsbyggðarkjördæmunum þremur eru karlar hafi verið erfitt að setja inn karlkyns oddvita.
„Ég fyrir mitt litla líf get ekki beðið hann eða nokkurn mann skriflega afsökunar á því að neita að hverfa frá jafnréttissjónarmiðum flokksins,“ skrifar Natan og vísar þar til orða Benedikts sem segist ekki hafa viljað taka annað sæti á lista flokksins þar sem uppstillingarnefnd vildi ekki biðja hann afsökunar á að hafa upphaflega boðið honum neðsta sæti listans.
Þá bætir Natan við að þegar tillaga um prófkjör var borin upp í Reykjavíkurráði flokksins hafi hún fengið dræmar undirtektir.
„Allt ferlið fór eftir þeim lýðræðislegu leikreglum sem flokkurinn setti sér við stofnun og Benedikt er einn af aðalhöfundum að.“