Framkvæmdir vegna rakaskemmda og myglu í Fossvogsskóla, sem staðið hafa yfir með hléum í tvö ár, hafa ekki skilað tilskildum árangri og enn er glímt við sömu vandamál og áður en þær hófust: rakaskemmdir og hátt rakastig á sömu svæðum.
Ákveðið hefur verið að engin kennsla fari fram í skólanum á næsta skólaári, en allar þrjár byggingar skólans verða gerðar upp „með tilliti til nútíma krafna í skólastarfi og byggingartækni“ eins og það er orðað í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Ákvörðunin er tekin í kjölfar úttektar sem verkfræðistofan Efla gerði fyrir borgina. Efla mun hafa eftirlit framkvæmdunum allt þar til yfir lýkur og er það nýbreytni frá því sem áður var þegar eftirlit var í höndum fram framkvæmdaaðilans sjálfs.
Borgaryfirvöld funduðu í kvöldi með foreldrum skólabarna.
Karl Óskar Þráinsson, formaður Foreldrafélags Fossvogsskóla, segir í samtali við mbl.is að foreldrar séu ánægðir með að fá Eflu að borðinu. „Þetta er teymi fólks sem veit hvað það er að gera og getur fylgt þessu eftir,“ segir Karl Óskar.
Í úttekt Eflu eru nefnd 17 atriði í fjórum flokkum sem ráða þarf bót á en þau snúa að ýmsum þáttum og tengjast ekki öll raka- og mygluvandamálum. Til dæmis þurfi að endurnýja gólfefni, fjarlægja múr og einangrun af útveggjum, skipta um innréttingar og skipta um rakaskemmt timbur, en einnig líta til bruna- og aðgengismála.
Karl Óskar segir að himinn og haf sé á milli nálgunar stofunnar og þeirra sem áður höfðu eftirlit með verkinu, Verkís. Þá sé til mikilla bóta að eftirlitsaðili sé óháður framkvæmdaaðila.
Ekki hafi áður verið ráðist í heildstæða úttekt á skólanum heldur aðeins reynt að bregðast við þeim kvörtunum sem borist höfðu frá nemendum og kennurum, sem ekki eru sérfræðingar í rakaskemmdum.
Fyrstu drög að áætlunum gera ráð fyrir að framkvæmdir standi yfir allt næsta skólaár, en ljóst að ekki er hægt að slá því föstu fyrr en greiningarvinna er hafin.
Meðan á þeim stendur verður skólastarf að fara fram annars staðar, og útlit er fyrir að það verði í Korpuskóla í Grafarvogi, á hjara höfuðborgarsvæðisins.
Foreldrar hafa lagt á það áherslu að leitað verði leiða til að tryggja að skólahald verði í hverfinu, til dæmis með því að settar verði upp færanlegar kennslustofur. „Við vitum að það gerist ekki yfir nótt, en það þarf að byrja þá vinnu strax,“ segir Karl Óskar.
Hann segir foreldra hafa áhyggjur af bæði nemendum og starfsfólki. „Það þarf að leita fleiri leiða til að börn og starfsfólk geti unnið. Við höfum bæði áhyggjur af börnum sem þola illa breytingar og sjáum að þetta kemur fram í námsframvindu þeirra, en líka þeim áhrifum sem þetta hefur á starfsfólk,“ segir hann.
Í svari borgarinnar við fyrirspurn borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins kemur fram að kostnaður við framkvæmdir í Fossvogsskóla hafi hingað til numið 600 milljónum króna.
Inni í þeirri tölu eru þó ýmsar framkvæmdir sem ekki snúa að myglu- og rakaskemmdum, svo sem endurnýjun á bókasafni, kennarastofu og tæknimálum.
„Engu að síður er það tilfinning okkar að mælikvarði [borgarinnar] á árangur hafi hingað til verið í fjölda króna en ekki í upplifun notenda,“ segir Karl Óskar.