Bláa lónið opnar að fullu á morgun og verður nú opið alla daga vikunnar. Fyrirtækið hefur að auki ráðið til sín 112 nýja starfsmenn. Starfsemi lónsins hefur að mestu legið niðri frá 8. október í fyrra þó það hafi verið opið um helgar í maí.
Opnunin nær til allra upplifunarsvæða Bláa Lónsins en þau eru lónið sjálft og Retreat Spa. fjórir veitingastaðir, tvö hótel, rannsóknar- og þróunarsetur auk verslunar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
„Bókanir eru farnar að taka vel við sér og við erum að búa okkur undir það að viðspyrnan sé að hefjast,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri og stærsti eigandi Bláa Lónsins, í samtali við mbl.is.
Samtals 112 nýir starfsmenn hafa verið ráðnir á undanförnum vikum og gert er ráð fyrir að fjölga þeim enn frekar á komandi vikum og mánuðum.
„Við erum með 330 starfmenn eftir þessa aukningu og ef okkar áætlanir ganga eftir og viðspyrnan verður með þeim hætti sem við gerum ráð fyrir ættum við að vera orðin rúmlega 400 þegar líða tekur á árið,“ sagði Grímur.
Fyrri starfsmenn ganga fyrir öðrum við ráðningar en Grímur segir það mikið gleðiefni að geta boðið starfsmönnum störf að nýju. Um er að ræða bæði störf á starfsvæði lónsins og í stoðeiningum fyrirtækisins.
Bláa lónið kynnir einnig sumarkort fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem veitir ótakmarkaðan aðgang að Bláa lóninu í allt sumar, en það gildir út september. Grímur segir að með þessu sé vilji til að auðvelda Íslendingum að geta notið Bláa lónsins.